„Það voru engin kjarasamningsbrot framin“

Sólveig Anna þvertekur fyrir að brot hafi verið framin.
Sólveig Anna þvertekur fyrir að brot hafi verið framin. Samsett mynd/mbl.is

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörin formaður Eflingar, segist fullviss um að engin kjarasamningsbrot hafi verið framin í hennar fyrri stjórnartíð. En hún gegndi áður formennsku í félaginu frá árinu 2018 og þangað til í lok október á síðasta ári þegar hún sagði af sér.

„Það voru engin kjarasamningsbrot framin og ég er ekki svo skyni skroppin að fara fram sem formaður í næststærsta stéttafélagi landsins fremjandi kjarasamningsbrot,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is en í gærkvöldi lá fyrir að hún yrði formaður Eflingar á ný.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að þrjár kon­ur, allar fyrr­ver­andi starfs­menn Efl­ing­ar, hefðu stefnt fé­lag­inu fyr­ir Héraðsdóm Reykja­vík­ur vegna meintra kjara­samn­ings­brota og annarrar ámælisverðrar framkomu fyrrverandi stjórnenda.

Sólveig segist sjálf ekki séð stefnuna, hún viti því lítið um málið og geti ekki tjáð sig frekar um það.

„Ég veit að ég hef ekki framið nein kjarasamningsbrot en ég hef ekki séð stefnuna þannig ég get ekki sagt neitt meira um málið.“

„Sorglegt og eflaust einstakt“ 

Stefn­end­ur eru Elín Hanna Kjart­ans­dótt­ir, Kristjana Val­geirs­dótt­ir og Anna Lísa Terraza en þeim var sagt upp störf­um hjá Efl­ingu.

Í færslu um málið á face­booksíðu sinni seg­ir Elín Hanna það vera „sorg­legt og ef­laust ein­stakt í sögu verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar og ör­ugg­lega í fyrsta sinn sem starfs­menn stétt­ar­fé­lags höfða mál á hend­ur stétt­ar­fé­lagi sínu og vinnu­veit­anda vegna kjara­samn­ings­brota og fram­komu þáver­andi stjórn­enda í Efl­ingu, þeirra Viðars Þor­steins­son­ar og Sól­veig­ar Önnu Jóns­dótt­ur. Í dag var Efl­ingu af­hent stefna frá mér og tveim öðrum fyrr­ver­andi sam­starfs­fé­lög­um mín­um. Stétt­ar­fé­lagi sem á að standa á bak við fé­lags­menn sína og verja þá gagn­vart brot­um á vinnu­markaði.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert