Skúli Halldórsson
Alls liggja 48 sjúklingar á Landspítala með Covid-19. Fjölgar þeim um einn á milli daga. Þrír sjúklinganna eru á gjörgæslu en enginn í öndunarvél, samkvæmt tilkynningu spítalans.
Ekki er ljóst hversu alvarleg veikindi hinna 45 eru. Landspítalinn sér sér aðeins fært að uppfæra upplýsingar um ástæðu innlagna, þ.e. hvort smitaðir sjúklingar hafi verið lagðir inn vegna Covid-19 eða af öðrum ástæðum, á fimmtudögum.
Þær upplýsingar voru ekki gefnar fyrr en fyrst í janúar síðastliðnum, í kjölfar gagnrýni fjölmiðla á dræma upplýsingagjöf.
Meðalaldur innlagðra er þó uppgefinn. Nemur hann nú 64 árum.
Af þeim, sem lágu inni á Landspítala með Covid-19 á fimmtudag fyrir viku, höfðu færri verið lagðir inn beinlínis vegna sjúkdómsins heldur en þeir sem voru lagðir inn af öðrum orsökum, en síðar reynst smitaðir.
Innlögnum vegna Covid-19 hefur til þessa farið stöðugt fækkandi, miðað við uppgefna tölfræði undanfarinn mánuð, þó svo að sjúklingum á spítala með kórónuveirusmit hafi fjölgað.
Starfsmenn Landspítala í einangrun eru 363 og hafa þeir aldrei verið fleiri. Fjölgar þeim um fimmtíu á milli daga.