„Sólon er þekktur samkomustaður sem stendur alltaf fyrir sínu. Hér sest fólk niður, fær sér að borða og aðrir líta hér inn í dagsins önn til að ræða daginn og veginn. Svo þegar kvölda tekur breytist andrúmsloftið í takt við það – meira fjör og stemning,“ segir Þórir Jóhannsson fjárfestir. Nýlega gengu í gegn kaup hans á veitingastaðnum Sólon Bistro sem er á horni Bankastrætis og Ingólfsstrætis í Reykjavík. Síðustu 30 árin hefur verið ýmiss konar veitingarekstur í húsinu; kaffihús, samkomustaður, listagallerí og skemmtistaður. Síðustu árin hefur í húsinu verið veitingastaðurinn Sólon Bistro og næturklúbburinn Club Sólon.
Þau Jón Sigurðsson og Jóhanna Hrefnudóttir hafa staðið að rekstrinum á Sólon frá 2013 og af þeim kaupir Þórir. Húsnæðið, sem er leigt, hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá 1943.
„Veitingarekstur heillaði mig snemma. Ellefu ára fór ég að vinna í söluskála úti á landi og þar kviknaði kannski áhuginn. Svo vann ég oft sem þjónn og plötusnúður á mennta- og háskólaárunum. Eftir nám í viðskiptafræði fór ég að vinna í bankageiranum í nokkur ár en var þó alltaf með nokkur önnur verkefni þar fyrir utan,“ segir Þórir.
Árið 2004 fór hann í tónlistarbransann eftir nokkur ár í bankakerfinu. Keypti svo stærsta hljóðver landsins, Stúdíó Sýrland, árið 2007, en seldi þann rekstur fyrir þremur árum. Skipti þá um takt, fór að leita að nýjum tækifærum og datt þar niður á kaupin á Sólon. Þau gengu í gegn sl. sumar en voru fyrst í sl. viku.
Byggingin í Bankastræti 7a, þar sem Sólon er til húsa, er svipsterk og falleg; reist á árunum 1926-1930. Þar innandyra er Þórir nú að hefja ýmsar breytingar, þar sem arkitektúr hússins og stíll verður hafður sem leiðarljós.
„Ég vildi fá góða tilfinningu fyrir rekstrinum og húsinu áður en hafist væri handa um breytingarnar og gaf mér nokkra mánuði í það. Þetta er hús margra skemmtilegra möguleika og hér hefur verið fjölbreytt starfsemi í áranna rás. Upphaflega var Sólon til dæmis í bland kaffihús og listagallerí svo hér má brydda upp á mörgu skemmtilegu,“ segir Þórir sem er með mörg járn í eldinum. Þar má nefna að jafnhliða Sólon kemur hann að rekstri Matbars á Hverfisgötu, veitingastaðarins Dragon Dim Sum við Bergstaðastræti og skemmtistaðarins Kiki QB við Laugaveg. Á Selfossi – heimabæ sínum – tengist hann rekstri Menam, Dragon Dim Sum og á og rekur vínbarinn Risið sem eru öll í Mathöllinni í nýja miðbænum.
„Hugsunin er svo að láta Sólon spila að einhverju leyti saman við aðra staði sem ég á og tengist. Möguleikarnir eru margir – enda húsið stórt og frábærlega staðsett. Fljótlega ætlum við til dæmis að kynna alls kyns uppákomur og nýjan matseðil sem meistarkokkarnir frá Matbar, með Hrafnkel Sigríðarson í broddi fylkingar, eru að hanna og þróa. Þar verður stefnum og straumum blandað saman af einstökum kunnáttumönnum, landsliðs- og listakokkum sem hafa verið lengi að og eru framúrskarandi í sínu fagi,“ tiltekur Þórir Jóhannsson og segir að síðustu:
„Velgengni í veitingarekstri nefnilega byggist á starfsfólki, að hafa þau réttu á öllum póstum. Þar er ég mjög heppinn því flest verkefni mín eru í samvinnu við mjög öflugt fólk. Þar sem allt byggist þetta á góðri samvinnu og samskiptum við fólk. Ys og þys, líf og fjör; einmitt þetta réð því að ég fann mig í veitingarekstri og vil vera þar.“