Af þeim 44 sem liggja nú smitaðir af kórónuveirunni inni á Landspítala var aðeins um þriðjungur, eða fimmtán manns, lagður inn vegna veikinda af völdum Covid-19 sjúkdómsins.
Þá liggja 23 smitaðir sjúklingar á spítalanum, sem ekki voru lagðir inn vegna Covid-19.
Loks treystir spítalinn sér ekki til að skera úr um hvort sex aðrir sjúklingar, sem eru smitaðir af kórónuveirunni, hafi verið lagðir inn á spítalann vegna Covid-19 veikinda eða af öðrum ástæðum.
Þetta má ráða af uppgefinni tölfræði spítalans.
Sú þróun heldur því áfram sem mbl.is hefur áður greint frá, að innlögnum á spítalann vegna Covid-19 fækkar eða þá að fjöldinn stendur nánast í stað, á sama tíma og fjöldi staðfestra smita í samfélaginu hefur aldrei verið meiri.
Þannig var í gær greint frá metfjölda smita. Og það met var slegið svo um munar í dag.
Landspítalinn veitir einungis upplýsingar um þessar ástæður innlagna á fimmtudögum. Það hóf hann fyrst að gera í janúar síðastliðnum, í kjölfar gagnrýni fjölmiðla á dræma upplýsingagjöf.
Af þeim 36 sjúklingum sem lágu inni á spítalanum með kórónuveirusmit síðasta fimmtudag, höfðu fimmtán verið lagðir inn vegna Covid-19 sjúkdómsins.
Í vikunni þar á undan voru þeir 19, þar áður 20, og fimmtudaginn 20. janúar voru þeir 23 talsins.
Af þeim fimmtán sem liggja inni og voru lagðir inn vegna Covid-19, þá hafa 11 verið bólusettir með örvunarskammti.
Hinir fjórir flokkast sem ekki bólusettir samkvæmt skilgreiningu yfirvalda, þar sem þeir hafa annað hvort fengið einn eða engan skammt bóluefnis.
Landspítalinn hefur gert þann fyrirvara að þrátt fyrir að sjúklingur hafi upprunalega ekki verið lagður inn vegna Covid-19 þá geti komið til þess að veikindi af völdum veirunnar verði alvarleg, og jafnvel leitt til þess að það þurfi að leggja viðkomandi á gjörgæslu.