Fækka farsóttarhúsum á næstunni

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum.
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er hægt og bítandi að verða viðráðanlegri,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.

Dregið verður úr starfsemi farsóttarhúsanna á næstunni samfara afléttingum samkomutakmarkana og breytingum á kórónuveirufaraldrinum. Gylfi segir við Morgunblaðið að hann búist við því að húsunum verði lokað hverju á fætur öðru. „Við erum með fjögur hótel í notkun í Reykjavík í dag og eitt á Akureyri. Hótelið á Akureyri er reyndar fullt núna og fyllist alltaf jafnharðan aftur. Faraldurinn þar í bæ er 2-3 vikum á eftir Reykjavík. Hér í Reykjavík erum við með samninga um Hótel Lind út apríl en öðrum hótelum verður lokað einu af öðru á næstunni.“

Hann segir að flestir sem greinast séu sem betur fer með tiltölulega væg einkenni. Lítið sé um ferðamenn á landinu sem þurfi á farsóttarhúsum að halda. Þó séu alltaf einhverjir sem þurfi að geta leitað til farsóttarhúsa. „Við höfum til dæmis verið að aðstoða heimilislausa sem hafa greinst og svo eru alltaf mismunandi aðstæður hjá fólki. Metfjöldi smita greindist á þriðjudag og margir þurfa að bíða í 2-3 daga eftir niðurstöðum og einangra sig á meðan. Það er enn þá einhver þörf fyrir okkur en hún fer minnkandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert