Ef áætlanir Landsvirkjunar ganga eftir og nauðsynleg leyfi fást í tíma verður unnt að hefja undirbúningsframkvæmdir við Hvammsvirkjun í neðrihluta Þjórsár undir lok þessa árs og auglýsa útboð á byggingarframkvæmdum. Þetta er þó háð afgreiðslu á virkjanaleyfi og framkvæmdaleyfi. Þá hefur stjórn Landsvirkjunar ekki ákveðið að ráðast í framkvæmdina.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Aðalatriðið er að við séum með skilvirt kerfi þar sem leyfisveitingar taki ekki of langan tíma en á sama tíma sé ekki veittur afsláttur af gæðum leyfisveitinganna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þegar hann er spurður hvort leyfisveitingakerfi virkjana sé nógu skilvirkt. Landsvirkjun sótti um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun fyrir átta mánuðum. Orkustofnun hefur nú svarað og óskað eftir nánari upplýsingum.
Eftir áratuga undirbúning þar sem forsendur hafa iðulega breyst hillir nú undir að framkvæmdir hefjist við Hvammsvirkjun sem er efst fyrirhugaðra virkjana í neðrihluta Þjórsá og verður áttunda aflstöð Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Undirbúningsframkvæmdir felast meðal annars í vegagerð, greftri á frárennslisskurði, aðstöðusköpun og færslu á mastri Búrfellslínu sem liggur yfir vinnusvæðið.
Valur Knútsson, forstöðumaður á framkvæmdasviði Landsvirkjunar, segir að vegna erfiðs aðgangs að efnisnámum hafi verið ákveðið að byrja á því að grafa frárennslisskurðinn og nota efnið við uppbyggingu vega.