Munu ekki kalla fólk úr einangrun

Forstjóri Landsspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir
Forstjóri Landsspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir forstjóri Landspítala segir ekki stefna í að starfsfólk verði kallað úr einangrun í vinnu þrátt fyrir mikinn mönnunarvanda á stofnuninni.

Tæplega 50 starfsmenn spítalans greindust með kórónuveiruna síðastliðinn sólarhring en á fjórða hundrað starfsmenn eru nú í einangrun. Í tilkynningu farsóttanefndar á vefsíðu spítalans segir að það horfi til „algerra vandræða um helgina“.

Hópsmit á Vífilsstöðum

Alls liggja 44 sjúklingar á Landspítala með Covid-19 á 11 deildum. Þar af eru 13 sem liggja á Vífilsstöðum þar sem hópsmit kom nýlega upp.

Þá hefur mönnunarvandinn verið hvað verstur á fæðingarvaktinni og smitsjúkdómadeild.

„Staðan er bara mjög þung, hún er bara mjög erfið,“ segir Guðlaug Rakel í samtali við mbl.is.

Vetrarfrí grunnskólanna sett strik í reikninginn

Hún segir dreifingu smita innan stofnunarinnar bæta gráu ofan á svart og að reynt sé eftir fremsta megni að sameina sjúklinga til að auðvelda umönnun þeirra sem krefst mikils viðbúnaðar, en allir Covid-sýktir þurfa að sæta einangrun.

Spurð út í komandi helgi, segir Guðlaug mönnunarvandann vega hvað þyngst. Starfsmenn séu ekki einungis frá vegna kórónuveirusmita heldur ýmissa ástæðna, meðal annars annarra veikinda. Þá hafi vetrarfrí grunnskólanna einnig sett strik í reikninginn.

„Við erum að reyna allt hvað við getum til að manna helgina svo við náum að halda starfseminni uppi,“ segir Guðlaug.

Ætla ekki þá leið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafa rætt þann möguleika að heimila einkennalausu starfsfólki að koma til vinnu til að hægt sé að bregðast við mönnunarvandanum sem herjar á heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili í landinu.

Skiptar skoðanir eru uppi um þetta úrræði og gagnsemi þess en flestir virðast þó á sama máli um að ekki yrði gripið til þess nema í brýnustu neyð.

Spurð hvort aðstæður kalli á að flýta þessu úrræði, svarar Guðlaug Rakel því neitandi. 

„Eins og staðan er núna ætlum við ekki að fara þá leið,“ segir hún og bætir við að frekar sé leitast við að forgangsraða verkefnum meðal starfsmanna á vakt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert