Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, greindist nýlega með Covid-19, en hann greinir flokksmönnum frá þessu í bréf sem hann sendi út í dag.
Hafði hann gert ráð fyrir að vera á ferðinni alla vikuna þar sem nú er kjördæmavika, en þurft að hætta við eftir jákvæð heimapróf og einkenni, sem síðan var staðfest að væri smit.
„Þetta kom í framhaldi af því að ég hafði tvisvar farið í sóttkví vegna smits í fjölskyldunni og er því ákaflega bagalegt. Ég er þó óðum að hressast og losna væntanlega úr einangrun um helgina,“ segir Sigmundur. Hann bætir við að hann og þingmenn flokksins muni drífa sig af stað um leið og færi gefst og nýta tækifærið og hitta flokksmenn.
Segir Sigmundur jafnframt að stjórnmálin séu að taka við sér eftir faraldurinn og sendir hvatningarorð til flokksmanna.
„Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá ykkur að stjórnmálin virðast vera að vakna úr löngum dvala. Nú þurfum við að láta mikið til okkar taka á hinum ýmsu sviðum og það munum við gera. Ég hlakka til að hitta ykkur og leggja á ráðin um framhaldið.“