Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat í dag fund varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) um öryggisáskoranir í tengslum við framferði Rússa við landamæri Úkraínu.
Áhersla fundarins, sem fór fram í Brussel fyrr í dag, var ástandið í og við Úkraínu og áhrif þess á öryggi í Evrópu. Voru þar m.a. rædd fælingarmáttur og varnir aðildarríkja NATO, og viðræður við rússnesk stjórnvöld sem hafa átt að draga úr spennu á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Í hópi þeirra sem tóku þátt í fundinum voru varnarmálaráðherrar Úkraínu og Georgíu. Var stuðningur NATO við þessi tvö ríki áréttaður á fundinum en bæði löndin standa frammi fyrir ólögmætri hersetu Rússlands innan sinna landamæra.
„Ógnandi tilburðir Rússlands valda miklum áhyggjum, ekki síst í ljósi þess sem sagan kennir okkur. Framferði Rússa stuðlar að uppbyggingu og stigmögnun spennu í samskiptum ríkja og slíkt ástand felur í sér sjálfstæða hættu á átökum. Það er því ákaflega mikilvægt að dregið sé úr spennu með viðræðum og áframhaldandi samtali. Því miður hefur framferði Rússa ekki gefið tilefni til aukins trausts í slíkum samskiptum,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningunni.