Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna tilraunar til brots gegn blygðunarsemi og barnaverndarlögum. Sendi maðurinn árið 2018 öðrum notenda á einkamal.is skilaboð sem innihéldu kynferðislegt og lostugt orðbragð og eina mynd af getnaðarlim sínum. Maðurinn taldi móttakanda skilaboðanna vera 14 ára gamla stúlku og gaf notendanafn móttakandans það einnig í skyn.
Fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands að lögreglu hafi borist ábending um myndskeið sem var í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem sjá mátti samskipti milli tveggja aðila á einkamal.is og í framhaldinu upptöku af því þegar maður á sextugsaldri mætir til að hitta unglingsstúlku. Þar hafi þó beðið hans karlmaður á þrítugsaldri sem hafði þóst vera unglingsstúlkan.
Maðurinn sem tók upp samskiptin og kom fram sem tálbeita er Jóhannes Eggertsson og hefur meðal annars komið í viðtal á K100 þar sem hann lýsti því hvernig hann notaði tálbeituaðferðir til að góma menn sem vildu hitta ungar stúlkur á stefnumótasíðum.
Hafði Jóhannes, sem þekktur er undir nafninu Jóa Lífið, þá í nokkurn tíma stundað að setja upp aðganga á stefnumótasíðu og setja þar inn auglýsingar sem 14 ára gömul stúlka. Sagði hann við mbl.is árið 2017 að að yfir 250 karlmenn hafi viljað komast í samskipti við þessa skálduðu stúlku og að skilaboðin hafi mörg hver verið „algjör viðbjóður.“ Sýndi hann fylgjendum sínum á Snapchat frá þessum aðgerðum sínum og vöktu þær mikla athygli á sínum tíma.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi neitað sök í málinu. Hann hafi talið sig vera í samskiptum við „unga stúlku“ en að hann hafi ekki munað hvað hún væri gömul eða hvert notendanafn hennar var. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagðist hann hafa talið að stúlkan væri hið minnsta átján ára, en það hafi verið aldurstakmarkið á umræddum vef.
Meðal gagna málsins eru samskipti aðilanna. Upphafssamskiptin voru meðal annars eftirfarandi:
Ákærði: „Hæhæ ertu til i spjall við 52 ara kk??“
Eftir ítrekaðar spurningar hans hvort stúlkan sé feimin og finnist hann of gamall kemur svar.
Tálbeita: „Ég er 14 en hef gaman að skoða mig um :D“
Eftir frekari skilaboð frá manninum ítrekar tálbeitan aldurinn.
Tálbeita: „Ehmm.... ég verð að byrja á að segja þér að ég er 14 ára :P haha trufalar það þig nokkuð?“
Ákærði: Nei það gerir það ekki ertu með email sem eg ma fa til ad tina þer ekki þegar em [innsk. Einkamal.is] kemst að þvi hvað þu ert gömul ?“
Í framhaldinu biður maðurinn um mynd af stúlkunni og spyr hana hvort hún hugsi „mikið um sex.“ Gengur hann í kjölfarið á eftir henni með fjölda kynferðislegra spurninga sem hún svarar ekki, en svo sendir maðurinn typpamynd.
Síðar koma þau sér saman um að hittast, en maðurinn sagði fyrir dómi að hann hafi aðeins ætlað að sannreyna aldur hennar að gefa henni ís. Sem fyrr segir hitti þar tálbeitan manninn og tók upp myndband af honum á vettvangi.
Jóhannes, sem kom fram sem tálbeitan, bar vitni fyrir dómi og sagðist meðal annars hafa reynt að líkja eftir svörum ungrar stúlku. Þá sagðist hann hafa dreift myndbandinu á samfélagsmiðlum svo ungar stúlkur gætu varað sig á manninum.
Dómurinn er skýr með það að öll samskipti mannsins hafi borið með sér að hann ætti í samskiptum við 14 ára stúlku. Er skýring hans um að hann væri að taka þátt í fantasíu stúlkunnar sagður ótrúverðug og hann talinn hafa brotið á sér í samræmi við ákæru málsins.
„Með hliðsjón af ofangreindu er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð undir 209. Gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Breytir hér engu hvort blygðunarsemi raunverulegs móttakanda skilaboðanna var særð eður ei, en skilaboðin og myndsendingin var fallin til að særa blygðunarsemi viðtakanda, sem ákærði lét sér í léttu rúmi liggja hvort væri 14 ára stúlka,“ segir í dóminum. Hann er hins vegar ekki fundinn sekur um tilraun til brota á barnaverndarlögum þar sm ekki er sérstaklega mælt fyrir um refsinæmi tilraunabrota gegn þeim lögum.
Var maðurinn ákærður gegn 209. grein almennra hegningarlaga og tveimur málsgreinum 99. greinar barnaverndarlaga.
209. grein almennra hegningarlaga er eftirfarandi:
Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en [fangelsi allt að 6 mánuðum] eða sektum ef brot er smávægilegt.
1. og 3. málsgrein 99. greinar barnaverndarlaga er eftirfarandi:
Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.