Á rauðan lista vegna umferðar utan vega

Akstur utan vega jókst vegna eldgossins í Fagradalsfjalli.
Akstur utan vega jókst vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða hér á landi hefur farið batnandi og hefur stöðum sem eru taldir í hættu fækkað á milli ára. Einn staður hefur þó bæst á rauðan lista yfir áfangastaði sem eru í hættu en þar er um að ræða svæði sem eru undir það miklu álagi að hætta er á að verndargildi þeirra tapist og grípa þarf til aðgerða. Um er að ræða Vigdísarvelli og Vigdísarvallaleið (líka nefnd Djúpavatnsleið) innan Reykjanesfólkvangs og er ástæðan m.a. rakin til aukinnar umferðar vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. Eru þar sagðar vera miklar skemmdir vegna utanvegaaksturs, ruslsöfnunar og ýmiskonar óæskilegrar hegðunar á svæðinu.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Umhverfisstofnun hefur birt um mat á ástandi 148 áfangastaða ferðamanna á seinasta ári, sem eru á friðlýstum svæðum.

Aukinn akstur utan vega

„Aukin vitneskja um svæðið og nálægð við gossvæðið hefur aukið umferð um Vigdísarvallaleið. Akstur utan vega jókst í ár vegna eldgoss í Fagradalsfjalli en margir keyrðu þarna í gegn til að komast á gossvæði. Að auki er farið að nota svæðið sem leiksvæði fyrir ýmis farartæki og er því um að ræða miklar skemmdir á náttúru svæðisins. Settar voru upp nokkrar mjög áberandi „allur akstur bannaður“-lokanir sem ekki voru virtar,“ segir í skýrslunni sem Morgunblaðið fjallar um í dag.

Bent er á að vegur kom illa undan vetri sem leiddi til enn meiri utanvegaaksturs og að leita þurfi leiða til að koma í veg fyrir akstur utan vega og taka á honum. Bæta þurfi merkingar og loka förum með landmótun á mörgum stöðum o.fl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert