Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna rannsóknar á skotárás í Grafarholti í síðustu viku þar sem skotið var á karl og konu. Höfðu mennirnir áður verið hnepptir í viku varðhald sem rann út í dag og framlengist varðhaldið nú í viku, eða til 25. febrúar.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn málsins miði vel.
Fram hefur komið að meiðsli fólksins sem varð fyrir árásinni hafi verið töluverð en hvorugt þeirra er í lífshættu.
Annar maðurinn var handtekinn í húsnæði við Miklubraut morguninn eftir skotárásina þar sem lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með mikinn viðbúnað vegna málsins. Hinn maðurinn var handtekinn eftir hádegið sama dag. Þá hefur verið lagt hald á ökutæki og skotvopn, sem lögreglan telur að hafi verið notað við verknaðinn.
Lögreglan hefur staðfest að tengsl séu á milli árásarmannanna og fórnarlambanna. Verið að rannsaka tilgang árásinnar, meðal annars hvort um einhvers konar hefndaraðgerð er að ræða.