Áfram í varðhaldi eftir skotárás í Grafarholti

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna rannsóknar á skotárás í Grafarholti í síðustu viku þar sem skotið var á karl og konu. Höfðu mennirnir áður verið hnepptir í viku varðhald sem rann út í dag og framlengist varðhaldið nú í viku, eða til 25. febrúar. 

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn málsins miði vel. 

Fram hefur komið að meiðsli fólks­ins sem varð fyr­ir árás­inni hafi verið tölu­verð en hvor­ugt þeirra er í lífs­hættu.

Ann­ar maður­inn var hand­tek­inn í hús­næði við Miklu­braut morguninn eftir skotárásina þar sem lög­regla og sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra voru með mik­inn viðbúnað vegna máls­ins. Hinn maður­inn var hand­tek­inn eft­ir há­degið sama dag. Þá hef­ur verið lagt hald á öku­tæki og skot­vopn, sem lög­regl­an tel­ur að hafi verið notað við verknaðinn. 

Lögreglan hefur staðfest að tengsl séu á milli árás­ar­mann­anna og fórn­ar­lambanna. Verið að rann­saka til­gang árás­inn­ar, meðal ann­ars hvort um ein­hvers kon­ar hefnd­araðgerð er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert