Landsréttur staðfesti í dag þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki kæmi til álita að rifta greiðslu þrotabús DV til íslenska ríkisins að fjárhæð 85 milljóna króna.
Staðfest var að önnur greiðsla þrotabúsins til íslenska ríkisins, að fjárhæð 40.946.684 krónur, yrði rift, og íslenska ríkinu gert að greiða þrotabúinu fyrrnefnda upphæð.
Þrotabú DV ehf. höfðaði mál á hendur ríkisins í nóvember 2018 og krafðist riftunar á greiðslunum tveimur. Í málinu var deilt um kröfu þrotabúsins um greiðslu skulda þrotamanns, sem fór fram í tvennu lagi.
Í dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fyrri greiðslan félli utan tímamarka sem sett eru í lögum um gjaldþrotaskipti og því kæmi riftun á greiðslunni á grundvelli þeirrar lagagreinar ekki til álita. Þá kom fram að greiðslan, sem lá fyrir að innt var af hendi af hálfu þriðja aðila, hefði aldrei borist DV ehf. eða verið í félaginu á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Því var ekki talið að greiðslan hefði á neinn hátt rýrt eignir DV ehf. á umræddum tíma eins og rekið er í dómi Landsréttar.
Hvað varaði seinni greiðsluna, greiðslu til íslenska ríkisins að fjárhæð 40,9 milljónir króna, var óumdeilt að greiðslan hefði borist ríkinu af bankareikningi þáverandi móðurfélags DV ehf. og í kjölfarið verið færð sem skuld DV ehf. við móðurfélagið í bókhaldi þess.
Að teknu tilliti til fjárhagslegrar stöðu DV ehf. á þessum tíma var litið svo á að greiðslan hefði skert greiðslugetu félagsins verulega og að hún hefði ekki verið venjuleg eftir atvikum sbr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Var því fallist á kröfu þrotabúsins um riftun greiðslunnar sem fyrr segir og ríkinu dæmt að greiða því alls 40.946.684 krónur.