„Horfir til algerra vandræða um helgina“

Frá Landspítala. Þar er mönnun orðin að verulegu vandamáli.
Frá Landspítala. Þar er mönnun orðin að verulegu vandamáli. Ljósmynd/Landspítali

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala sjá fram á að vandræði skapist á spítalanum um helgina vegna þess að mikill fjöldi starfsfólks er frá vegna Covid-19 og annarra veikinda. Þá eru að auki Covid-19 sjúklingar á ellefu deildum spítalans og veldur það álagi. 

Covid sýktir starfsmenn Landspítala í einangrun eru 409.

45 sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19. Fjórir eru á gjörgæslu, einn þeirra í öndunarvél. Meðalaldur innlagðra er 62 ár. Talnagögn um það hversu margir eru inniliggjandi vegna Covid-19 en ekki annarra sjúkdóma hefur ekki verið uppfærð þegar þetta er skrifað.

Stærsta áskorunin að manna hvern sólarhring

Nefndin og stjórnin hafa „þungar áhyggjur af því ástandi sem uppi er í heilbrigðiskerfinu“ vegna umræddra veikinda og fólks sem liggur inni á spítalanum vegna Covid-19 annars vegar og með Covid-19 hins vegar. 

„Stærsta áskorun spítalans er að manna hvern sólarhring og nú horfir til algerra vandræða um helgina á mörgum deildum,“ segir í tilkynningu á vef Landspítala.

900 jákvæð sýni bárust eftir miðnætti í gær

Á miðvikudag greindust 2.317 smit innanlands samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Þá bárust 900 jákvæðar niðurstöður eftir miðnætti í gær og munu þau smit teljast inn í smittölur gærdagsins.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Guðlaug Rakel Guðjóns­dótt­ir, for­stjóri Land­spít­ala, ekki stefna í að starfs­fólk verði kallað úr ein­angr­un í vinnu þrátt fyr­ir mik­inn mönn­un­ar­vanda á stofn­un­inni. Mönn­un­ar­vand­inn hefur verið hvað verst­ur á fæðing­ar­vakt­inni og smit­sjúk­dóma­deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert