ÍE aðstoði ekki við að minnka biðtíma

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir heilbrigðisyfirvöld ekki koma til með að fá aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar við að greina PCR-sýni þrátt fyrir langan biðtíma eftir niðurstöðum. Fyrirtækið heldur þó áfram að raðgreina hluta þeirra sýna sem eru jákvæð en almennri raðgreiningu hefur verið hætt.

Í gær greindust 2.317 með kórónuveirusmit innanlands af því 4.271 innanlandssýni sem var greint. Bið eftir niðurstöðum úr sýnatöku hefur lengst töluvert síðustu daga og er nú um tveir sólarhringar.

Þá segir hann engar fyrirætlanir um að leggja niður hraðpróf þó svo að sóttkví og smitgát séu ekki lengur í gildi.

„Það er bara til að greina veikindi. Það hefur svo sem ekkert með einangrun eða sóttkví að gera. Ég býst við að flestir vilji vita ef þeir fá Covid. Þá eru það hraðpróf eða PCR-próf. Eins og staðan er núna erum við að taka mjög mikið af PCR-prófum og þess vegna er biðin eftir svörum svo löng. Þá erum við að taka hraðpróf ef menn komast ekki annað.“

Nánast allt Ómíkron

Fyrr í vikunni tilkynnti sóttvarnalæknir að almennri raðgreiningu á já­kvæðum kór­ónu­veiru­sýn­um verði hætt sökum þess að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar væri nú allsráðandi. Þá var fjöldi smita sem greindist á dag einnig langt umfram getu til raðgreiningar hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Í hverri viku er þó sent úrtak sýna til raðgreininga til að hægt sé að fylgjast með gangi mála, að sögn Þórólfs.

„Þetta er núorðið nánast allt Ómíkron.“

Og þá af og til Delta inn á milli ennþá?

„Já en það er eitthvað mjög lítið.“

Spurður hvort líklegt þyki að Delta-afbrigði veirunnar muni ná sér á strik aftur ef hjarðónæmi næst með Ómíkron-afbrigðinu, svarar Þórólfur því neitandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert