Krefst stjórnarskipta með hjálp lögmanns

Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Eflingar á nýjan leik …
Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Eflingar á nýjan leik á þriðjudagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

B-listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur hefur falið Gunnari Inga Jóhannssyni, hæstaréttarlögmanni að krefjast upplýsinga um hvenær boðað verði til aðalfundar Eflingar. Þessu er greint frá í fréttatilkynningu frá B-listanum.

Á þriðjudag sigraði listi Sólveigar stjórnarkjör Eflingar og greindi Sólveig Anna frá því í Facebook-færslu í dag að hvorki sitjandi formaður né varaformaður hefði óskað sér til hamingju eða haft samband til að ræða „praktísk mál“ er varða félagið, á borð við stjórnarskipti.

Í ljósi þess hafi B-listinn sent frá sér erindi í formi kröfubréfs á Agnieszku Ewu Ziół­kowska, sitjandi formann Eflingar, þar sem óskað er eftir upplýsingum um aðalfund og stjórnarskipti.

„Ekkert samband hefur verið haft af hálfu Eflingar – stéttarfélags við umbjóðanda minn um tilhögun stjórnarskipta og dagsetningu aðalfundar, sem vekur furðu,“ segir í kröfubréfinu.

Hafi þegar misst umboðið

Í bréfinu segir einnig að fráfarandi formaður og stjórnarmenn hafi „þegar misst umboð félagsmanna til að fara með málefni félagsins“. Trúnaðarráð félagsins hafi ályktað um að aðalfundi félagsins skuli flýtt og hann fari fram fyrir 15. mars nk. „Stjórn félagsins ber að fara að ályktunum trúnaðarráðs,“ segir meðal annars í bréfinu. 

Þá sagði Sólveig Anna einnig í Facebook-færslu sinni að Ólöf Helga Adolfsdóttir, sitjandi varaformaður, „ætli ekki að framfylgja vilja trúnaðarráðs félagsins“ og hafi sagt það í rökræðum á samfélagsmiðlum en Ólöf laut í lægra haldi gegn Sólveigu í stjórnarkjörinu á þriðjudag. Ólöf mun þó koma til með að halda áfram að starfa innan stéttafélagsins.

„Í stað þess að hegða sér með sómasamlegum hætti í kjölfar lýðræðislegra kosninga og í samræmi við það embætti sem hún gegnir er varaformaður Eflingar, Ólöf Helga Adolfsdóttir, í rökræðum á samfélagsmiðlum um það af hverju hún ætlar sér ekki að framfylgja vilja trúnaðarráðs félagsins, æðsta valds í málefnum félagsins á milli félagsfunda,“ segir í færslu Sólveigar Önnu.

Færsla Sólveigar Önnu þar sem einnig má sjá kröfubréfið:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert