Morðinginn sagði að hann myndi aldrei skaða Freyju

Freyja Egilsdóttir.
Freyja Egilsdóttir.

Systir Freyju Egilsdóttur, sem myrt var af eiginmanni sínum fyrir um ári síðan, sagði að Freyja hafi aldrei verið hrædd við eiginmanninn, Flemming Mogensen.

Flemming játaði að hafa myrt Freyju og var dæmdur í lífstíðar fangelsi í kjölfarið. Flemming hafði 25 árum áður myrt fyrrverandi kærustu sína Kristinu Hansen sem var 26 ára gömul þegar hún lést. Fyrir það voðaverk hlaut Flemming 10 ára dóm en hann sat inni í sex ár.

Systirin heitir Dísa Egilsdóttir en hún ræddi við danska ríkisútvarpið og birtist viðtal við hana þar í gær. Dísa sagðist eiga erfitt með að skilja hvað hafi gerst. 

„Hugsaðu um að það er einhver sem hefur ákveðið að hún ætti ekki að vera hér lengur. Hver gaf honum leyfi til þess? Ég held að hann hafi litið á Freyju sem eign,“ sagði Dísa.

Skap Flemmings ofsafengið

Freyja og Flemming kynntust í Árósum snemma á tíunda áratugnum og segir Dísa að þau hafi verið mjög ástfangin. Ef litið var á samband þeirra utan frá leit allt út fyrir að vera í lagi, að sögn Dísu. Freyja og Flemming bjuggu saman í mörg ár og eignuðust börn.

Þó fyrstu árin hafi verið góð urðu skapsveiflur Flemmings til vandræða, að sögn Dísu. 

„Hann var alltaf svolítið sérstakur. En við hugsuðum með okkur að kannski væri hann öðruvísi en við vegna þess að hann var danskur. Þau litu út fyrir að hafa það gott en það kom í ljós seinna að hann var með mjög ofsafengið skap,“ sagði Dísa.

„Hann varð til dæmis fljótt reiður út í aðra ökumenn þegar hann var á akstri. Mér fannst þetta bara skrýtið en Freyja var aldrei hrædd við hann. Aldrei.“

Freyja vildi ekki taka aftur við Flemming

Þegar Freyja og Flemming höfðu verið saman í 20 ár fór sambandið út um þúfur og þau slitu samvistum að ósk Freyju.

Eftir sambandsslitin reyndi Flemming að bæta ráð sitt. Hann léttist um allnokkur kíló og eyddi meiri tíma með börnum þeirra Freyju en hún vildi ekki hefja samband með honum að nýju.

Föstudagsmorguninn 29. janúar í fyrra var Freyja ein heima hjá sér en börnin voru sofandi á heimili Flemmings. Samt mætti hann heim til hennar fyrirvaralaust og rifrildi fór af stað. Svo myrti hann hana. 

„Þegar ég heyrði það varð allt bara svart“

Fjölskylda Freyju frétti ekki af því að Flemming hefði myrt fyrrverandi kærustu sína fyrr en sex árum eftir að þau Freyja höfðu byrjað saman. 

„Þegar ég heyrði það varð allt bara svart,“ sagði Dísa. Henni þótti erfitt að frétta af því að systir hennar hefði gifst morðingja.

Þegar hún ræddi málið við Flemming sagði hún honum að hún væri ekki ánægð að heyra af þessu. „En ég treysti því að þetta hefði verið eitthvað sem gerðist en gæti aldrei gerst aftur,“ sagði Dísa.

Hún sagði að Flemming hefði svarað því til að hann myndi aldrei skaða Freyju. Dísa hafði engra kosta völ nema að trúa því. 

„Hann hafði tekið út sína refsingu og ég trúði því í raun að hann hefði sagt mér sannleikann á þeim tíma,“ útskýrir hún. 

Börnin verði að geta horft fram á veginn

Hugur Dísu er nú hjá börnum Freyju og Flemmings.

„Þau verða að geta haldið áfram að lifa lífinu og horft fram á veginn. Þess vegna held ég að hann ætti bara að vera í fangelsi.“

Dísa sagðist ekki geta hætt að hugsa um systur sína og að hún eigi erfitt með svefn. 

„Ég hugsa um hana á daginn og mig dreymir hana oft á nóttunni en ég held að hún hafi fundið frið. Ég trú því að orka okkar, sálin ef svo má segja, lifi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert