Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður hjá Kjarnanum, segist engar áhyggjur hafa af fyrirhugaðri yfirheyrslu hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra næsta þriðjudag. Arnar Þór er einn af þeim blaðamönnum sem hefur réttarstöðu sakbornings fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins í umfjöllunum sínum um aðferðir „skæruliðadeildar Samherja“ gegn blaðamönnum.
Arnar Þór segist í færslu á Facebook ekki hafa brotið nein lög „nema það sé orðið saknæmt á Íslandi að taka þátt í því að flytja almenningi fréttir sem eiga erindi. Ég tel mig heldur ekkert of góðan til þess að svara spurningum lögreglu, eins og einhverjir e.t.v. halda.“
Arnar segist aftur á móti ekki geta ímyndað sér að lögreglan hafi nokkuð annað í huga en að spyrja hann um það hvernig og hvaðan gögn sem nýtt voru til að vinna fréttir hafi borist ritstjórn Kjarnans.
„Þeim spurningum get ég ekki og má hreinlega ekki, lögum samkvæmt, svara. Af þeirri ástæðu fæ ég ekki almennilega skilið af hverju lögreglan er að boða mig til yfirheyrslu,“ skrifar Arnar Þór.
„Það sem veldur mér þó áhyggjum í þessu öllu saman eru þau viðhorf og skilningsleysi gagnvart blaðamennsku og hlutverki fjölmiðla sem sumir ráðamenn hafa opinberað á undanförnum dögum.“
Þrír aðrir blaðamenn hafa verið boðaðir í yfirheyrslu vegna meintra brota á friðhelgi einkalífsins. Það eru þau Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, Þóra Arnórsdóttiur, ritstjóri Kveiks á Ríkisútvarpinu og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá sendu í gærkvöldi frá sér stuðningsyfirlýsingu við fjölmiðlafólkið.
„Það er hafið yfir vafa að upplýsingarnar sem komu fram í fjölmiðlaumfjöllun fjögurra blaðamanna um vinnubrögð „skæruliðadeildar“ Samherja vörðuðu almannahagsmuni,“ segir í yfirlýsingu þeirra.
„Það er grafalvarlegt að ráðist sé svo að blaðafólki fyrir það eitt að segja frá mikilvægum upplýsingum. Frjáls fjölmiðlun er einn af hornsteinum lýðræðisins, og þegar ráðist er að þeim er það árás á allan almenning.“