Rúmlega 80 prósent íslenskra miðaldahandrita með svonefndum riddara- og fornaldarsögum hafa glatast í tímans rás. Sögurnar sjálfar hafa hins vegar varðveist mun betur; um 77 prósent þeirra eru enn til vegna uppskrifta í aldanna rás. Þetta er meðal þess sem ný rannsókn fræðimanna við tólf alþjóðlegar háskólastofnanir á varðveislu evrópskra miðaldahandrita og sagna leiðir í ljós. Einn fræðimannanna er dr. Katarzyna Anna Kapitan við Oxford-háskóla, en hún hefur stundað nám og rannsóknir í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Frá rannsókninni er greint í tímaritinu Science sem kemur út í dag.
Fræðimenn um bækur og handrit hafa áður reynt að áætla með ýmsum aðferðum hve mikill fjöldi handrita og sagna frá miðöldum hefur varðveist. Í rannsókninni nú er hins beitt tölfræðilegum reiknilíkönum sem gefið hafa góð raun á allt öðru fræðasviði, í vistfræði.