Um tveggja sólarhringa bið vegna sýnahalans

Frá greiningu sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Frá greiningu sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Sýnahalinn sem skapaðist þegar fólk var enn skyldað í sóttkví fyrr á árinu er ástæða langrar, gjarnan um tveggja sólarhringa, biðar eftir niðurstöðu úr sýnatöku vegna kórónuveirunnar. Starfsfólk sýkla- og veirufræðideildar hefur reynt að hraða greiningunni eins og hægt er en hægt gengur að „saxa“ á halann.

„Við erum alltaf að reyna að stytta halann sem veldur þessari bið en það gengur hægt vegna þess að það berast enn mörg sýni til okkar,“ segir Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. „Okkur dreymir um að vinna þetta aðeins niður og það er það sem við stefnum alltaf að og gerum það sem við getum.“

Greiningargeta deildarinnar er um 5.000 sýni á dag og berast um það bil 5.000 sýni þangað daglega. Það ætti að smellpassa en það er ekki raunin þar sem sýni „hlóðust“ upp á meðan sóttkvíarreglur voru enn í gildi og sjö til átta þúsund sýni bárust deildinni daglega, að sögn Guðrúnar. 

Umræddur hali lengist því ekki en styttist hægt.

„Við erum alltaf að berjast við að saxa á hann en það gengur því miður allt of hægt,“ segir Guðrún.

Íslensk erfðagreining tók áður þátt í greiningu sýna en hætti …
Íslensk erfðagreining tók áður þátt í greiningu sýna en hætti því í lok janúarmánaðar. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Mönnunarvandi hefur ekki haft áhrif sem stendur

Mönnunarvandi hefur verið á Landspítala vegna einangrunar og veikinda starfsfólks undanfarið. Guðrún segir þó að staðan sé nokkuð góð hvað varðar mönnun á sýkla- og veirufræðideildinni.

„Það er ótrúlega lítið miðað við það sem aðrir hafa lent í, við erum bara rosalega ánægð og enn sem komið gengur þetta, það hefur ekki haft áhrif á starfsemina enn þá og við vonum að það haldist þannig.“

Eðlilegt að fólk sé óþolinmótt

Síðustu sólarhringa hefur starfsfólk deildarinnar unnið sérstaklega hratt og hefur það borið einhvern árangur. Fólk má samt sem áður enn gera ráð fyrir því að um tveir sólarhringar líði þar til niðurstöður úr sýnatöku berast. Hvað tímann varðar skiptir máli hvenær sýnin berast deildinni, stundum tekur það nokkrar klukkustundir eða hálfan dag og svo tekur það deildina um það bil einn og hálfan sólarhring að greina sýnin. 

„Enn sem komið er er hægt að gera ráð fyrir alveg fullum tveimur sólarhringum og jafnvel meiru,“ segir Guðrún spurð um þá bið sem fólk má búast við þegar það fer í sýnatöku.

Guðrún segist skilja að fólk sé óþolinmótt.

„Það er mjög eðlilegt vegna þess að þetta skiptir svo miklu máli, fólk getur misst úr vinnu og öðru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert