10 ára gömlum dreng bjargað úr snjóflóði

Lögregla og Slysavarnarfélagið Landsbjörg beinir þeim tilmælum til fólks að …
Lögregla og Slysavarnarfélagið Landsbjörg beinir þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð við Hamarinn í Hveragerði eða við hlíðar hans vegna sjóflóðahættu. Ljósmynd/Lögreglan

Tíu ára gömlum dreng var bjargað úr snjóflóði sem fallið hafði í Hamrinum við Hveragerði rétt fyrir klukkan tvö í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.

Hafði snjóhengja fallið niður hlíð Hamarsins þar sem drengurinn hafði verið að leik með öðrum börnum.

Fjórtán ára gamall bróðir drengsins sýndi mikið snarræði og hárrétt viðbrögð er hann staðsetti bróður sinn í flóðinu, gróf frá andliti hans og hringdi í Neyðarlínu 112 eftir aðstoð.

Hjálparsveit Skáta í Hveragerði var kölluð til og sinnti hún björgun drengsins og kom honum í sjúkrabifreið. Að sögn foreldra drengsins er líðan hans góð eftir atvikum.

Lögreglan og Slysavarnafélagið Landsbjörg beinir þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð við Hamarinn í Hveragerði eða við hlíðar hans. Veðuraðstæður hafi skapað fjölda snjóhengja sem hætta sé á að geti fallið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert