Fjölmennt var á friðsælum mótmælum

Ljósmynd/Aðsend

Fjölmennt var á mótmælum sem ungliðahreyfingar Sósíalista, Samfylkingar, Pírata, Vinstri Grænna og Viðreisnar höfðu boðað til á Austurvelli klukkan tvö í dag, þrátt fyrir lítinn fyrirvara og appelsínugular veðurviðvaranir.

Þetta var svona með stærri mótmælum sem maður hefur séð, fyrir utan þau allra stærstu auðvitað,“ segir Hrefna Árnadóttir, forseti ungra Pírata, í samtali við mbl.is.

Viðbrögð lögreglunnar veki upp spurningar

Tilefni mótmælanna voru yfirheyrslur lögreglunnar á fjórum blaðamönnum sem fjölluðu um „skæruliðadeild“ Samherja. Blaðamönnunum fjórum er veitt staða sakbornings en þeir eru grunaðir um brot gegn friðhelgi einkalífs með fréttaskrifunum.

Mótmælin snérust þó ekki síður um það hve misharkalega lögreglan bregst við málum eftir því hvaða málaflokk er um að ræða, að sögn Hrefnu. 

„Lögreglan hefur mætt ásökunum á hendur þessara blaðamanna um meintan símastuld og brot á friðhelgi einkalífsins, af mun meiri ákefð en öðrum málum á borð við kynferðisbrot og hjólastuld. Viðbrögð lögreglunnar eru það mikil í þessu máli að þau hljóta að vekja upp spurningar um hvort einhverjir pólítískir hagsmunir liggi að baki þeirra.“

Fulltrúar ungliðahreyfinga Sósíalista, Samfylkingar, Pírata, Vinstri Grænna og Viðreisnar á …
Fulltrúar ungliðahreyfinga Sósíalista, Samfylkingar, Pírata, Vinstri Grænna og Viðreisnar á mótmælunum á Austurvelli í dag. Ljósmynd/Aðsend

Á meðal þeirra sem tóku til máls á mótmælunum voru Karl Héðinn Kristjánsson, ungur sósíalisti, Ragna Sigurðardóttir, ungur jafnaðarmaður, Lenya Rún, ungur pírati, Auður Jónsdóttir, rithöfundur, Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Transparency International og Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.

Spurð segir Hrefna mætinguna á mótmælin hafa verið góð þrátt fyrir lítinn fyrirvara og heldur óhagstæða veðurspá, en appelsínugular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu út morgundaginn. Þá hafi mótmælin farið fram með friðsælum hætti.

„Það var alveg merkilega vel mætt miðað við stuttan fyrirvara, veður og hvað margir eru veikir heima með Covid. Þótt veðrið hafi að sjálfsögðu haft áhrif á mætinguna reyndist veðrið betra en spáin sagði til um. Ég myndi giska á að það hafi verið eitthvað um 300 manns sem mættu. Það voru engin læti. Hljóðið í fólki var bara rólegt og gott.“

Krefjast þess að fjölmiðlar fái að vera frjálsir

Á sama tíma var efnt til annarra mótmæla á Ráðhústorginu á Akureyri. Rúnar Freyr Júlíusson, ungur sósíalisti og skipuleggjandi mótmælanna, segir aðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi eystra vera óasættanlega aðför að frjálsum fjölmiðlum og tjáningarfrelsi hér í landi.

„Þetta virðist eiga að hræða þessa blaðamenn í að hafa ekki of hátt og það er óaásættanlegt. Við erum bara að krefjast þess að fjölmiðlar fái að vera frjálsir og að fréttafólk fái að segja frá því sem þarf að segja frá,“ segir Rúnar í samtali við mbl.is.

Spurður segir hann mætinguna á mótmælin á Akureyri hafa farið fram úr hans björtustu vonum og að mótmælin hafi farið fram með friðsælum hætti rétt eins og í Reykjavík.

„Það var ekkert ofbeldi eða neitt slíkt. Fólk fjölmennti bara á Ráðhústorgið á Akureyri. Samkvæmt okkar talningu voru þeitta eitthvað í kringum sextíu manns sem mættu og svo var bara tekið til máls í gjallarhornið og mótmælt.“

Rúnar Freyr Júlíusson, ungur sósíalisti, var meðal þeirra sem tók …
Rúnar Freyr Júlíusson, ungur sósíalisti, var meðal þeirra sem tók til máls á mótmælunum á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Fjórir ræðumenn tóku til máls á mótmælunum en það voru Rúnar sjálfur, Kjartan Sveinn Guðmundsson, ungur, óháður aktívisti, Jóhann Helgi Heiðdal, sósíalisti og heimspekikennari og píratinn Hrafndís Bára Einarsdóttir. 

Eftir að skipulögðu ræðuhöldunum var lokið fengu nokkrir sem mættu að taka til máls áður en mótmælunum var slúttað, að sögn Rúnars.

„Þetta snérist bara um að mæta, sýna þessum blaðamönnum stuðning og að við látum menn ekki komast upp með valdbeitingu af þessum hætti gegn frjálsum fjölmiðlum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert