Hvammur að komast á koppinn

Mannvirki hafa verið sett inn á loftmynd. Stíflan og Hagalón …
Mannvirki hafa verið sett inn á loftmynd. Stíflan og Hagalón eru mest áberandi. Mikið lokukerfi er í stíflunni og laxastigi og seiðafleyta til hliðar. Stöðvarhúsið verður lítt sýnilegt í landi Hvamms, til hægri á myndinni. Neðan við stífluna sést í endann á Minnanúpshólma. Undir fjallinu kúrir bærinn Hagi og Gaukshöfði er lengra upp með ánni. Í fjarska sést til Búrfells Tölvugerð mynd/Landsvirkjun

Hugsanlegt er að hægt verði að auglýsa útboð á framkvæmdum við Hvammsvirkjun í Þjórsá og hefja undirbúningsframkvæmdir á virkjunarstað fyrir lok ársins. En þá þarf líka allt að ganga upp í tíma, sérstaklega afgreiðsla á virkjanaleyfi og framkvæmdaleyfi. Þá er slík framvinda vitaskuld háð því að stjórn Landsvirkjunar ákveði að ráðist verði í virkjunina, þegar öll leyfi eru komin í höfn.

Hvammsvirkjun er efst af þremur virkjunum sem áformaðar eru í neðri hluta Þjórsár. Ávallt hefur legið fyrir að hún yrði fyrst á dagskrá, kæmi til virkjana á þessu svæði.

Undirbúningur virkjana í neðri hluta Þjórsár hefur í raun staðið yfir í áratugi. Þannig birti Orkustofnun forathugun á þessum kostum á árinu 1984 og rannsóknir og síðar frumhönnun hófust upp úr því.

Gert var umhverfismat fyrir Núpsvirkjun sem átti að virkja í tveimur áföngum, Hvamms- og Holtavirkjun, upp úr aldamótum, og í kjölfarið gerð verk- og útboðshönnun.

Þessum áformum var síðar skipt upp í tvær sjálfstæðar einingar, Hvamms- og Holtavirkjanir, með áherslu á Hvammsvirkjun sem fyrsta kost. Rannsóknir héldu áfram og farið yfir hönnun. Hvammsvirkjun lenti í biðflokki verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar sem Alþingi staðfesti á árinu 2013. Alþingi samþykkti síðar að færa virkjunina í orkunýtingarflokk. Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun voru sömuleiðis í orkunýtingarflokki samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar en sitja áfram í biðflokki þar sem Alþingi hefur ekki afgreitt málið.

Ölmóðsey. Til hægri tengist 900 metra langur fráveituskurður farveginum, með …
Ölmóðsey. Til hægri tengist 900 metra langur fráveituskurður farveginum, með vatn úr fráveitugöngum frá stöðvarhúsi. mbl.is/RAX

Rykið dustað af áætlunum

Eftir að unnið hafði verið töluvert að hönnun og undirbúningi Hvammsvirkjunar, meðal annars við nýtt umhverfismat að hluta, var verkefnið sett í bið tímabundið. Þá höfðu nýjar virkjanir verið teknar í notkun og ekki lá fyrir að þörf væri fyrir meiri orku.

Á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins óskuðu stjórnvöld eftir því að atvinnuskapandi verkefni yrðu sett í gang og Landsvirkjun dustaði þá rykið af Hvammsvirkjun. Raunar hafði ekki safnast nema eins eða tveggja ára ryklag á plönin. Síðan hefur verið unnið taktvisst að undirbúningi. Staðan nú er sú að beðið er eftir virkjanaleyfi Orkustofnunar. Þegar það kemst í höfn tekur framkvæmdastjórn Landsvirkjunar afstöðu til þess hvort sótt verði um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna fyrir byggingu virkjunarinnar. Raunar er unnið að því að hafa þá umsókn tilbúna í fyrri hluta apríl, þegar vonast er til að virkjanaleyfi berist. Þegar framkvæmdaleyfi liggur fyrir getur stjórn Landsvirkjunar tekið afstöðu til þess hvort ráðist verður í virkjunina.

Ef framkvæmaleyfi fæst á haustmánuðum verður, með leyfi stjórnar, hægt að bjóða út framkvæmdir og hefja undirbúningsframkvæmdir á verkstað fyrir lok árs. Byggingaframkvæmdir gætu þá hafist á næsta ári og virkjunin gangsett á árinu 2027. Allt er þetta háð ýmsum leyfum og ákvörðunum sem geta sett tímaáætlanir úr skorðum.

Ný leið yfir Þjórsá

Gangi áætlanir eftir og nauðsynleg leyfi fást í tíma verður unnt að hefja undirbúningsframkvæmdir undir lok þessa árs. Að sögn Vals felast þær einkum í vegaframkvæmdum, greftri á frárennslisskurði, aðstöðusköpun og færslu á einu eða tveimur möstrum Búrfellslínu 1 sem liggur yfir vinnusvæðið. Staðsetning línunnar hefur aftur á móti þann kost í för með sér að ekki þarf að byggja nýjar flutningslínur. Aðeins þarf að byggja tengivirki til að tengja Hvammsvirkjun inn á Búrfellslínu.

Valur Knútsson
Valur Knútsson

Vegurinn heim að Hvammi verður endurbyggður og síðan lagður aðkomuvegur að stöðvarhúsi. Þá verður gerður nýr vegur á milli Landvegar og Þjórsárdalsvegar, á brú skammt fyrir ofan fossinn Búða. Það er ný tenging á milli Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsveitar en engin akfær þvertenging er yfir Þjórsá frá Sultartangastöð og niður á Hringveg.

Kerfið þarf að vera skilvirkt

„Aðalatriðið er að við séum með skilvirkt kerfi þar sem leyfisveitingar taki ekki of langan tíma en á sama tíma sé ekki veittur afsláttur af gæðum leyfisveitinganna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þegar hann er spurður hvort leyfisveitingakerfi virkjana sé nógu skilvirkt.

Fram hefur komið að Landsvirkjun sótti um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar fyrir átta mánuðum án þess að niðurstaða sé fengin. Ástæðan er sögð umfang umsóknar og annir. Orkustofnun hefur nú óskað eftir skýrari upplýsingum um einstök atriði umsóknarinnar.

Valur Knútsson, forstöðumaður á framkvæmdasviði Landsvirkjunar, telur ekki óeðlilegt að afgreiðsla umsóknar fyrirtækisins taki sinn tíma. Sagan sé löng og forsendum hafi oft verið breytt. Þá sé framkvæmdin flóknari en ýmissa annarra virkjana.

Fram hefur komið að gögnin sem fylgdu umsókninni eru upp á 1.200 blaðsíður auk korta og teikninga. Spurður hvort nauðsynlegt hafi verið að senda öll þessi gögn segir Valur að reynt sé að draga fram öll helstu atriði í greinargerð. Hins vegar þurfi öll gögn að vera aðgengileg fyrir starfsfólk Orkustofnunar sem ítarefni. Ekki sé eðlilegt að framkvæmdaraðili sé að velja hvaða gögn það eigi að skoða og hver ekki. „Við erum boðin og búin að draga fram þau atriði sem þau vilja kynna sér og nálgast betur,“ segir Valur.

Orkumálin mikilvæg

Guðlaugur Þór segir mikilvægt að nýta náttúruauðlindir landsins til að framleiða græna orku, eins og aðrar þjóðir vilji gera, með það að markmiði að standa við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Mikilvægt sé að kerfið stuðli að því.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvað hægt sé að gera segir ráðherra að hann sé nýlega tekinn við þessu ráðuneyti og nýr orkumálastjóri hafi tekið til starfa á síðasta ári. Bendir á að margt hafi gerst í þessum efnum á stuttum tíma. Nefnir Guðlaugur að Orkustofnun hafi verið efld. Þar hafi verið unnið að stefnumörkun og nýtt skipurit gert. Eitt af markmiðum Orkustofnunar með umbótum í starfi er aukin skilvirkni.

„Þessum verkefnum er ekki lokið, það segir sig sjálft. Fólk er að átta sig á á því hvað orkumálin er mikilvægur málaflokkur, grunnur að efnahagslífi og velmegun þjóðarinnar. Mikilvægt er að ríkisstjórnin, þing og þjóð séu meðvituð um það,“ segir Guðlaugur Þór.

Frestir breyta ekki öllu

Þegar virkjanaleyfi var veitt af ráðherra, að tillögu Orkustofnunar, var kveðið á um það í lögum og reglugerð hversu langan tíma það mætti taka að afgreiða slík leyfi. Í svari Orkustofnunar í síðustu viku kom fram að nú væru engir slíkir frestir í raforkulögum eða reglugerð. Unnið sé að málum eins hratt og vel og stofnuninni sé unnt.

Guðlaugur vill ekki útiloka það að settir verði hámarksfrestir í lög. Hann telur það þó ekki breyta öllu og bendir á að mörg verkefni dragist á langinn þótt frestir séu ákveðnir í lögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert