Hermann Valsson var látinn liggja í 48 mínútur á gólfinu áður en hringt var á sjúkrabíl eftir að hann missti meðvitund á júdóæfingu hjá júdódeild Ármanns fyrir rúmu ári. Við komuna á sjúkrahús var hann greindur með heilablóðfall. Hann kveðst hafa mætt algjöru tómlæti hjá félagi sínu eftir atvikið og menn ekki bara neitað að sýna iðrun heldur reynt að þagga málið niður. Þess vegna vill hann segja sína sögu – til að ná fram réttlæti og einkum og sér í lagi til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur.
Hermann Valsson mætti sem endranær glaður í bragði á æfingu hjá júdódeild Ármanns í Laugardalnum 18. janúar 2021. Nýbúið var að leyfa æfingar aftur eftir hlé vegna heimsfaraldursins og hugur í mönnum. Júdóið hafði verið líf og yndi Hermanns í meira en tvo áratugi og æfingarnar alla jafna verið skemmtilegar og gefið honum mikið. Hann átti ekki von á öðru en að þessi yrði eins. Annað kom á daginn.
Um var að ræða tækniæfingu en ekki keppnisæfingu sem er tilvalin fyrir eldri iðkendur sem farnir eru að mæta sjaldan og getustig ekki hátt sökum aldurs. Eftir upphitun var farið í svokallaða hengingaræfingu og gekk Hermann fram gegn iðkanda og þjálfara í meistaraflokki á þrítugsaldri. Vel hraustum. „Sjálfur er ég með svarta beltið í júdó en kominn af léttasta skeiði og hættur að keppa fyrir rúmum fimmtán árum. Eigi að síður hef ég mjög gaman af því að glíma við þessa ungu stráka á æfingum enda þótt þeir sópi auðvitað gólfið með mér. En þeir hafa samt gagn af þessum æfingum sjálfir enda geta þeir æft tæknina og slípað sig til. Sjálfur get ég stoltur sagst eiga 1% í þeirra getu,“ útskýrir Hermann sem fæddur er árið 1956.
Hermann viðurkennir að hann hafi ekki verið í sínu besta formi þennan dag eftir langt Covid-hlé, auk þess sem hann hefur búið talsvert erlendis á umliðnum árum og æft lítið fyrir vikið. „Þetta vissi þjálfarinn, Yoshihiko Iura, og hefði þess vegna átt að biðja menn um að fara varlega að gamla manninum. Það er hluti af hegðunarviðmiðum og siðareglum þjálfara sem ÍSÍ hefur gefið út og er þekkt meðal reyndra þjálfara eins og Yoshihiko Iura er. Það gerði hann ekki,“ segir hann
Hermann og Iura höfðu gengið saman langan veg hjá júdódeild Ármanns; unnið saman, barist margsinnis saman að málefnum tengdum Júdó og aðhyllst sömu hugmyndafræðina. Þá hefur Hermann stutt son Iura fjárhagslega í júdóinu, auk þess að þjálfa hann og ungan son hans, það er barnabarn Iura. „Þetta fólk var mér mjög kært og ég leit á Iura sem vin minn,“ segir Hermann sem sat lengi í stjórn júdódeildar Ármanns og hefur bæði verið sæmdur silfur- og gullmerki félagsins fyrir vel unnin störf.
Iura, sem er frá Japan en hefur búið á Íslandi um langt árabil, hefur meira en hálfrar aldar reynslu af júdó; er með svarta beltið og gráðuna áttundi dan af tíu mögulegum. „Hann er með meistaragráðu í íþróttafræðum frá virtum japönskum háskóla, hefur verið sérlegur sendiherra japanska júdósambandsins og einn fremsti og virtasti júdóþjálfari á Vesturlöndum. Hefur þjálfað júdó í 22 löndum. Þess vegna er það sem gerðist á æfingunni með öllu óskiljanlegt,“ segir Hermann.
Þegar Hermann var kominn í gólfið með andstæðingi sínum leyfði hann honum að fara þrisvar til fimm sinnum inn í hengingu. Ekki var þó allt með felldu því Hermann minnist þess að hann hafi verið að missa alla skynjun og mátt og hreinlega að líða út af. „Á endanum datt ég bara út og stóð ekki meira upp. Það staðfesti formaður júdódeildar Ármanns við mig 11. júní í fyrra. Ég lá bara eins og kleina í gólfinu.“
Hann er ekki í nokkrum vafa um hvað hefði átt að gera strax þarna – hringja á sjúkrabíl. „Þegar maður missir meðvitund á júdóæfingu eða annars konar íþróttaæfingu eru fyrirmælin skýr: Þú tekur upp símann og velur 1-1-2. Tólf manns voru á æfingunni og enginn gerði neitt; ég var bara lagður til hliðar en þó í aðeins fimm metra fjarlægð frá miðju vallarins og látinn liggja þar meðvitundarlaus.“
Hermanni finnst eins og að hann hafi rankaði við sér þrisvar sinnum. Fengið einskonar leiftur og velt fyrir sér: „Hvað er ég að gera hérna?“ Hann man óljóst eftir að andstæðingur hans hafi staðið yfir honum en ekki hvað hann gerði eða sagði. „Ég man hvernig Ingvi Hrafn Jónsson lýsti því þegar hann fékk heilablóðfall í beinni útsendingu á ÍNN og mér leið ekki ósvipað.“
Næsta sem hann skynjaði var að Iura kom og setti púða undir fæturna á honum. „Það bendir til þess að hann hafi gert sér grein fyrir því að ástand mitt væri alvarlegt. Hvers vegna í ósköpunum maðurinn hringdi ekki á sjúkrabíl get ég bara ekki skilið. Sem þjálfari er hann ábyrgur fyrir því sem gerist á æfingum. Hann vissi að við vorum á hengingaræfingu sem gengur út á að stöðva flæði blóðs upp í heila. Ef maður stendur ekki upp eftir slíka æfingu hlýtur eitthvað mikið að vera að. Það segir sig sjálft. Iura veit mætavel að iðkendur hafa misst meðvitund æfingum og í keppni og jafnvel orðið fyrir heilaskaða. Þrátt fyrir þetta lætur hann mig liggja áfram í 48 mínútur og það er ekki fyrr en æfingin er búin og fimm mínútur í viðbót liðnar að mönnum dettur í hug að hringja á sjúkrabíl. Og það var ekki Iura sem tók upp símann, heldur annar iðkandi á æfingunni,“ segir Hermann og bætir við að sjúkrabíllinn hafi ekki verið kallaður út á fyrsta forgangi, heldur þriðja.
„Tíminn sem leið frá því að ég missti meðvitund og þangað til að sjúkrabíll kom var ein klukkustund og fimm mínútur að lágmarki en ein klukkustund og tíu mínútur að hámarki.“
Hermann segir hvorki Iura né aðra sem voru viðstaddir hafa neinar læknisfræðilegar forsendur til að meta stöðuna þannig að hann hafi ekki þurft á læknisaðstoð að halda. „Þetta var vítavert gáleysi af hans hálfu, í besta falli, en velta má fyrir sér hvort hegðun hans sé ekki hreinlega brot á hegningarlögum þar sem fjallað er um hjálparskylduna í grein 220 og grein 221. Að bregðast ekki við þegar maður er í lífshættu getur verið refsivert. Þess utan braut Iura náttúrulega grunnreglur júdósins og siðareglur og hegðunarviðmið þjálfara sem finna má á heimasíðu ÍSÍ.“
– Hvað manstu næst?
„Að sjúkraflutningamennirnir voru að hrista mig til að freista þess að fá svörun. Líklega til að athuga hvort ég kæmist til meðvitundar.“
Hermann var sendur í ítarlegar rannsóknir við komuna á Landspítalann, þar sem í ljós kom að hann hafði fengið heilablóðfall og var lamaður öðru megin. „Læknarnir voru mjög undrandi hvað það tók langan tíma að kalla til sjúkrabíl til að komast strax í viðeigandi meðferð.“
Hermann er ekki í vafa um að hengingartakið á æfingunni hafi valdið heilablóðfallinu. Hann dvaldist í viku á spítalanum en eftir það tók við endurhæfing á Grensás. Hann náði sér þokkalega og lömunin gekk til baka.
3. maí í fyrra fékk hann svo annað heilablóðfall og það þriðja fjórum dögum síðar þar sem slagæðin var stórskemmd. Þá var hann sendur í aðgerð á hálsslagæð. Æðin var opnuð með 13 cm löngum skurði frá eyra niður að viðbeini til að laga hana, svo koma mætti í veg fyrir frekari heilablóðföll. Við tók önnur endurhæfing á Grensás. Alls hefur Hermann þurft að leggjast í fjórgang inn á taugadeild spítalans.
– Hvernig er heilsa þín í dag?
„Hún er öll að koma til og ég mun vonandi ná mér að fullu á næstu misserum. Þetta hefur líka verið erfitt félagslega og ég hef þurft að leita aðstoðar fagaðila til að ná jafnvægi og skilningi á því hvernig þetta gat gerst; að ég væri látinn liggja ósjálfbjarga í gólfinu af mönnum sem ég hef unnið með að framgangi júdóíþróttarinnar. Ég bara get ekki skilið þetta,“ segir Hermann sem er mjög ósáttur við framgöngu júdódeildar Ármanns í málinu sem hann hefur kært til lögreglu.
Nánar er rætt við Hermann og fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.