Látinn liggja meðvitundarlaus í 48 mínútur

Hermann Valsson í salnum þar sem atvikið átti sér stað …
Hermann Valsson í salnum þar sem atvikið átti sér stað fyrir rúmu ári. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Her­mann Vals­son var lát­inn liggja í 48 mín­út­ur á gólf­inu áður en hringt var á sjúkra­bíl eft­ir að hann missti meðvit­und á júdóæf­ingu hjá júdó­deild Ármanns fyr­ir rúmu ári. Við kom­una á sjúkra­hús var hann greind­ur með heila­blóðfall. Hann kveðst hafa mætt al­gjöru tóm­læti hjá fé­lagi sínu eft­ir at­vikið og menn ekki bara neitað að sýna iðrun held­ur reynt að þagga málið niður. Þess vegna vill hann segja sína sögu – til að ná fram rétt­læti og einkum og sér í lagi til að koma í veg fyr­ir að svona lagað ger­ist aft­ur.

Her­mann Vals­son mætti sem endra­nær glaður í bragði á æf­ingu hjá júdó­deild Ármanns í Laug­ar­daln­um 18. janú­ar 2021. Ný­búið var að leyfa æf­ing­ar aft­ur eft­ir hlé vegna heims­far­ald­urs­ins og hug­ur í mönn­um. Júdóið hafði verið líf og yndi Her­manns í meira en tvo ára­tugi og æf­ing­arn­ar alla jafna verið skemmti­leg­ar og gefið hon­um mikið. Hann átti ekki von á öðru en að þessi yrði eins. Annað kom á dag­inn.

Um var að ræða tækniæf­ingu en ekki keppn­isæfingu sem er til­val­in fyr­ir eldri iðkend­ur sem farn­ir eru að mæta sjald­an og getu­stig ekki hátt sök­um ald­urs. Eft­ir upp­hit­un var farið í svo­kallaða heng­ingaræf­ingu og gekk Her­mann fram gegn iðkanda og þjálf­ara í meist­ara­flokki á þrítugs­aldri. Vel hraust­um. „Sjálf­ur er ég með svarta beltið í júdó en kom­inn af létt­asta skeiði og hætt­ur að keppa fyr­ir rúm­um fimmtán árum. Eigi að síður hef ég mjög gam­an af því að glíma við þessa ungu stráka á æf­ing­um enda þótt þeir sópi auðvitað gólfið með mér. En þeir hafa samt gagn af þess­um æf­ing­um sjálf­ir enda geta þeir æft tækn­ina og slípað sig til. Sjálf­ur get ég stolt­ur sagst eiga 1% í þeirra getu,“ út­skýr­ir Her­mann sem fædd­ur er árið 1956.

Her­mann viður­kenn­ir að hann hafi ekki verið í sínu besta formi þenn­an dag eft­ir langt Covid-hlé, auk þess sem hann hef­ur búið tals­vert er­lend­is á umliðnum árum og æft lítið fyr­ir vikið. „Þetta vissi þjálf­ar­inn, Yos­hi­hi­ko Iura, og hefði þess vegna átt að biðja menn um að fara var­lega að gamla mann­in­um. Það er hluti af hegðun­ar­viðmiðum og siðaregl­um þjálf­ara sem ÍSÍ hef­ur gefið út og er þekkt meðal reyndra þjálf­ara eins og Yos­hi­hi­ko Iura er. Það gerði hann ekki,“ seg­ir hann

Svona kveðst Hermann hafa legið á gólfinu í 48 mínútur …
Svona kveðst Her­mann hafa legið á gólf­inu í 48 mín­út­ur eft­ir að hann missti meðvit­und á æf­ing­unni. Mynd­in er sviðsett.


Höfðu gengið sam­an lang­an veg

Her­mann og Iura höfðu gengið sam­an lang­an veg hjá júdó­deild Ármanns; unnið sam­an, bar­ist margsinn­is sam­an að mál­efn­um tengd­um Júdó og aðhyllst sömu hug­mynda­fræðina. Þá hef­ur Her­mann stutt son Iura fjár­hags­lega í júdó­inu, auk þess að þjálfa hann og ung­an son hans, það er barna­barn Iura. „Þetta fólk var mér mjög kært og ég leit á Iura sem vin minn,“ seg­ir Her­mann sem sat lengi í stjórn júdó­deild­ar Ármanns og hef­ur bæði verið sæmd­ur silf­ur- og gull­merki fé­lags­ins fyr­ir vel unn­in störf.

Iura, sem er frá Jap­an en hef­ur búið á Íslandi um langt ára­bil, hef­ur meira en hálfr­ar ald­ar reynslu af júdó; er með svarta beltið og gráðuna átt­undi dan af tíu mögu­leg­um. „Hann er með meist­ara­gráðu í íþrótta­fræðum frá virt­um japönsk­um há­skóla, hef­ur verið sér­leg­ur sendi­herra jap­anska júdósam­bands­ins og einn fremsti og virt­asti júdóþjálf­ari á Vest­ur­lönd­um. Hef­ur þjálfað júdó í 22 lönd­um. Þess vegna er það sem gerðist á æf­ing­unni með öllu óskilj­an­legt,“ seg­ir Her­mann.

Þegar Her­mann var kom­inn í gólfið með and­stæðingi sín­um leyfði hann hon­um að fara þris­var til fimm sinn­um inn í heng­ingu. Ekki var þó allt með felldu því Her­mann minn­ist þess að hann hafi verið að missa alla skynj­un og mátt og hrein­lega að líða út af. „Á end­an­um datt ég bara út og stóð ekki meira upp. Það staðfesti formaður júdó­deild­ar Ármanns við mig 11. júní í fyrra. Ég lá bara eins og kleina í gólf­inu.“

Hann er ekki í nokkr­um vafa um hvað hefði átt að gera strax þarna – hringja á sjúkra­bíl. „Þegar maður miss­ir meðvit­und á júdóæf­ingu eða ann­ars kon­ar íþróttaæf­ingu eru fyr­ir­mæl­in skýr: Þú tek­ur upp sím­ann og vel­ur 1-1-2. Tólf manns voru á æf­ing­unni og eng­inn gerði neitt; ég var bara lagður til hliðar en þó í aðeins fimm metra fjar­lægð frá miðju vall­ar­ins og lát­inn liggja þar meðvit­und­ar­laus.“

Her­manni finnst eins og að hann hafi rankaði við sér þris­var sinn­um. Fengið einskon­ar leift­ur og velt fyr­ir sér: „Hvað er ég að gera hérna?“ Hann man óljóst eft­ir að and­stæðing­ur hans hafi staðið yfir hon­um en ekki hvað hann gerði eða sagði. „Ég man hvernig Ingvi Hrafn Jóns­son lýsti því þegar hann fékk heila­blóðfall í beinni út­send­ingu á ÍNN og mér leið ekki ósvipað.“

13 sm skurður er á hálsi Hermanns eftir aðgerðina sem …
13 sm skurður er á hálsi Her­manns eft­ir aðgerðina sem gerð var á hálsslagæðinni til að reyna að koma í veg fyr­ir fleiri heila­blóðföll.


Þjálf­ar­inn ábyrg­ur

Næsta sem hann skynjaði var að Iura kom og setti púða und­ir fæt­urna á hon­um. „Það bend­ir til þess að hann hafi gert sér grein fyr­ir því að ástand mitt væri al­var­legt. Hvers vegna í ósköp­un­um maður­inn hringdi ekki á sjúkra­bíl get ég bara ekki skilið. Sem þjálf­ari er hann ábyrg­ur fyr­ir því sem ger­ist á æf­ing­um. Hann vissi að við vor­um á heng­ingaræf­ingu sem geng­ur út á að stöðva flæði blóðs upp í heila. Ef maður stend­ur ekki upp eft­ir slíka æf­ingu hlýt­ur eitt­hvað mikið að vera að. Það seg­ir sig sjálft. Iura veit mæta­vel að iðkend­ur hafa misst meðvit­und æf­ing­um og í keppni og jafn­vel orðið fyr­ir heilaskaða. Þrátt fyr­ir þetta læt­ur hann mig liggja áfram í 48 mín­út­ur og það er ekki fyrr en æf­ing­in er búin og fimm mín­út­ur í viðbót liðnar að mönn­um dett­ur í hug að hringja á sjúkra­bíl. Og það var ekki Iura sem tók upp sím­ann, held­ur ann­ar iðkandi á æf­ing­unni,“ seg­ir Her­mann og bæt­ir við að sjúkra­bíll­inn hafi ekki verið kallaður út á fyrsta for­gangi, held­ur þriðja.

„Tím­inn sem leið frá því að ég missti meðvit­und og þangað til að sjúkra­bíll kom var ein klukku­stund og fimm mín­út­ur að lág­marki en ein klukku­stund og tíu mín­út­ur að há­marki.“

Her­mann seg­ir hvorki Iura né aðra sem voru viðstadd­ir hafa nein­ar lækn­is­fræðileg­ar for­send­ur til að meta stöðuna þannig að hann hafi ekki þurft á lækn­isaðstoð að halda. „Þetta var víta­vert gá­leysi af hans hálfu, í besta falli, en velta má fyr­ir sér hvort hegðun hans sé ekki hrein­lega brot á hegn­ing­ar­lög­um þar sem fjallað er um hjálp­ar­skyld­una í grein 220 og grein 221. Að bregðast ekki við þegar maður er í lífs­hættu get­ur verið refsi­vert. Þess utan braut Iura nátt­úru­lega grunn­regl­ur júdós­ins og siðaregl­ur og hegðun­ar­viðmið þjálf­ara sem finna má á heimasíðu ÍSÍ.“

– Hvað manstu næst?

„Að sjúkra­flutn­inga­menn­irn­ir voru að hrista mig til að freista þess að fá svör­un. Lík­lega til að at­huga hvort ég kæm­ist til meðvit­und­ar.“

Her­mann var send­ur í ít­ar­leg­ar rann­sókn­ir við kom­una á Land­spít­al­ann, þar sem í ljós kom að hann hafði fengið heila­blóðfall og var lamaður öðru meg­in. „Lækn­arn­ir voru mjög undr­andi hvað það tók lang­an tíma að kalla til sjúkra­bíl til að kom­ast strax í viðeig­andi meðferð.“

Fékk tvö önn­ur heila­blóðföll

Her­mann er ekki í vafa um að heng­ing­ar­takið á æf­ing­unni hafi valdið heila­blóðfall­inu. Hann dvald­ist í viku á spít­al­an­um en eft­ir það tók við end­ur­hæf­ing á Grens­ás. Hann náði sér þokka­lega og löm­un­in gekk til baka.

3. maí í fyrra fékk hann svo annað heila­blóðfall og það þriðja fjór­um dög­um síðar þar sem slagæðin var stór­skemmd. Þá var hann send­ur í aðgerð á hálsslagæð. Æðin var opnuð með 13 cm löng­um skurði frá eyra niður að viðbeini til að laga hana, svo koma mætti í veg fyr­ir frek­ari heila­blóðföll. Við tók önn­ur end­ur­hæf­ing á Grens­ás. Alls hef­ur Her­mann þurft að leggj­ast í fjór­gang inn á tauga­deild spít­al­ans.

– Hvernig er heilsa þín í dag?

„Hún er öll að koma til og ég mun von­andi ná mér að fullu á næstu miss­er­um. Þetta hef­ur líka verið erfitt fé­lags­lega og ég hef þurft að leita aðstoðar fagaðila til að ná jafn­vægi og skiln­ingi á því hvernig þetta gat gerst; að ég væri lát­inn liggja ósjálf­bjarga í gólf­inu af mönn­um sem ég hef unnið með að fram­gangi júdóíþrótt­ar­inn­ar. Ég bara get ekki skilið þetta,“ seg­ir Her­mann sem er mjög ósátt­ur við fram­göngu júdó­deild­ar Ármanns í mál­inu sem hann hef­ur kært til lög­reglu.

Nán­ar er rætt við Her­mann og fjallað um málið í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert