Norræn ljósmyndasýning var opnuð í Hörpu síðdegis í gær, að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Tilefni sýningarinnar er 95 ára afmæli Ljósmyndarafélags Íslands. Upphaflega átti sýningin að vera í nóvember sl. en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Guðni opnaði sýninguna með formlegum hætti en hún verður uppistandandi á 1. hæðinni til 3. mars nk. og er öllum opin. Til sýnis eru 45 verðlaunamyndir frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Efnt var til samkeppni félaga atvinnuljósmyndara í hverju landi.
Guðni veitti nokkrum íslenskum verðlaunahöfum viðurkenningar, sem eiga myndir á sýningunni. Aldís Pálsdóttir fékk tvenn verðlaun, auk stigahæstu myndar, Heiða Hrönn Björnsdóttir fékk verðlaun fyrir landslagsmynd og Sigurður Ólafur Sigurðsson fékk verðlaun fyrir fréttamynd.
Í dómnefnd fyrir íslensku myndirnar sátu Tony Sweet frá Bandaríkjunum, Gabe McClintock frá Kanada og Line Loholt frá Noregi. Íslensku myndirnar eru frá átta atvinnuljósmyndurum. Stærri myndirnar eru stigahæstar í sínum flokki; portrettmyndir, auglýsingamyndir,
landslagsmyndir og frétta- og heimildarmyndir. Minni myndirnar eru stigahæstu myndir óháð flokkum.