„Það eru miklar breytingar í þessum rekstri. Við erum ekki að fækka afgreiðslustöðum heldur fjölga þeim – en vissulega að breyta þeim,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandspósts.
Fyrirtækið hefur ákveðið að loka tveimur pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu hinn 1. maí næstkomandi. Um er að ræða pósthúsin við Háholt 14 í Mosfellsbæ og við Litlatún 3 í Garðabæ. „Þetta er búið að vera í undirbúningi og við höfum upplýst viðkomandi bæjaryfirvöld og fundað með bæjarstjórunum,“ segir Hörður.
Eftir að pósthúsunum tveimur verður lokað verða sex pósthús eftir á höfuðborgarsvæðinu. Í vikunni var greint frá lokun tveggja pósthúsa á Suðurlandi.
„Þessi eru tvö af þeim minni sem við höfum á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum með sex öflug pósthús eftir. Það er stutt frá Garðabæ á pósthúsið í Kópavogi sem er mjög öflugt og líka tiltölulega stutt í Hafnarfjörð. Pósthúsið í Mosfellsbæ er okkar minnsta pósthús en við erum þegar komin með tvö póstbox í Mosfellsbæ og erum að vinna með bæjarstjórninni í að finna pláss fyrir fleiri þar,“ segir Hörður.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.