Háskóli Íslands brautskráir 455 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Engin formleg brautskráningarathöfn er á dagskrá vegna samfélagsástandsins en brautskráningarkandídötum býðst að sækja prófskírteini sín í Háskólabíó.
Afhendingu prófskírteina verður skipt upp eftir fræðasviðum. Nemendur í deildum Hugvísindasviðs ríða á vaðið kl. 10-11, deildir Heilbrigðisvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs koma þar á eftir kl. 11-12, nemendur úr deildum Menntavísindasviðs kl. 12-13 og loks verða prófskírteini frá deildum Félagsvísindasviðs afhent kl. 13-14.
Kandídatar hafa þegar fengið sendar frekari upplýsingar og leiðbeiningar í tölvupósti.
Brautskráð er úr öllum 26 deildum skólans og ljúka 190 kandídatar grunnnámi en 265 framhaldsnámi. Frá Félagsvísindasviði skólans brautskrást 176 kandídatar, 53 frá Heilbrigðisvísindasviði, 70 frá Hugvísindasviði, 96 frá Menntavísindasviði og 60 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Við afhendingu prófskírteina verður sóttvarnaviðmiðum fylgt í hvívetna og eru kandídatar hvattir til að bera andlitsgrímur þegar þeir koma í Háskólabíó. Grímur og sótthreinsispritt verða einnig á staðnum fyrir þau sem það vilja.