Slæmt ferðaveður síðdegis

Gular viðvaranir eru í kortunum.
Gular viðvaranir eru í kortunum. Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir slæmt ferðaveður sunnan- og vestanlands síðdegis í dag og fram eftir degi á morgun. Búast má við stormi syðst á landinu seinni partinn í dag með snjókomu. Frost verður á bilinu 0 til átta stig og austan 10 til 18 metrar á sekúndu. Víða verður skafrenningur, að því er fram kemur í spá Veðurstofu Íslands.

Gular veðurviðvaranir taka gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suður- og Suðausturlandi upp úr hádegi í dag og seinni partinn.

Búast má við hvössum vindi og skafrenningi með lélegu skyggni á Reynisfjalli eftir hádegi. Undir Eyjafjöllum og í Öræfum gætu vindhviður verið á bilinu 40 til 45 metrar á sekúndu síðdegis í dag.

Hægari vindur verður á Norðaustur- og Austurlandi, og skýjað með köflum.

Í kvöld mun bæta í vind og í nótt má búast við norðaustan og austan hvassviðri eða stormi með dálitlum éljum. 

Upp úr hádegi á morgun mun veður skána þar sem dregur smám saman úr vindi. Þá birtir til á sunnanverðu landinu og frost verður á bilinu núll til fimm stig.

Hægt verður að fylgjast með gangi mála á veðurvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert