Takast á við barnasprengju

Í byggingunni við Vinastræti 1-3 er samrekinn leik- og grunnskóli.
Í byggingunni við Vinastræti 1-3 er samrekinn leik- og grunnskóli. mbl.is/Árni Sæberg

Ungum barnafjölskyldum hefur fjölgað hratt að undanförnu í Urriðaholti í Garðabæ og bæjaryfirvöld átt fullt í fangi með að tryggja sívaxandi fjölda barna í hverfinu leikskólavist.

Pláss í samreknum grunn- og leikskóla Urriðaholtsskóla hafa hvergi nærri dugað til og í fyrra var gripið til þess ráðs að setja upp til bráðabirgða sex deilda ungbarnaleikskóla, Mánahvol á Vífilsstöðum, með færanlegum einingahúsum, sem unnt er að stækka í átta deildir. Frekari uppbygging er í undirbúningi, skiptir þar mestu væntanlegur leikskóli sem reisa á við Holtsveg. Gert er ráð fyrir að hann taki til starfa um miðjan ágúst á næsta ári.

Hafliði Kristinsson, formaður íbúasamtaka Urriðaholts, segir að úrræðin í dag hafi ekki mætt þörfum íbúanna og uppbygging leikskóla gengið of hægt fyrir sig. „Það er spenna í hverfinu út af þessu og hún er mjög skiljanleg,“ segir hann. Íbúasamtökin hafi þrýst á bæjaryfirvöld að hraða aðkallandi uppbyggingu leikskóla. ,,Alveg frá upphafi hafa skólamálin verið meginmál samtakanna, að bæði grunnskóli og leikskóli séu í forgangi. Það hefur bara gengið of hægt að okkar mati en við höldum áfram að þrýsta á,“ segir hann.

Bygging leikskóla fyrir 120 börn við Holtsveg á að hefjast …
Bygging leikskóla fyrir 120 börn við Holtsveg á að hefjast í maí á þessu ári. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir aftur á móti að nóg pláss sé í boði í dag fyrir leikskólabörn en stóra vandamálið sem menn standi frammi fyrir sé skortur á starfsfólki á leikskólana. „Við erum með allskonar áætlanir á prjónunum um að ná í fólk en þetta er ekki bara vandamál í Garðabæ heldur á höfuðborgarsvæðinu í heild,“ segir Gunnar. Sveitarfélagið hefur m.a. sett í gang auglýsingaherferð til að laða að starfsfólk á leikskólana og lagt til hliðar 25 milljónir kr. í pott til að gera betur við starfsmenn.

Samsetning íbúa í Urriðaholti er fáheyrð í sveitarfélögum, yfir 70% þeirra sem flutt hafa í hverfið eru fædd eftir 1980 og börn á leikskólaaldri eru nú um 16% íbúa. Þessu átti enginn von á þegar hverfið var skipulagt á sínum tíma og líkir Gunnar þessari fjölgun barna við sprengingu. „Þetta er miklu meira en við höfum séð í gegnum tíðina. Það er ótrúlegur fjöldi ungs fólks sem er að koma þarna inn í hverfið, sem er ánægjulegt en það er líka krefjandi að mæta þörfum þeirra.“

Spá fjölgun í 480 árið 2024

Nýlega birti VSÓ Ráðgjöf greiningu á þörf fyrir uppbyggingu húsnæðis leik- og grunnskóla í Garðabæ til ársins 2040 þar sem fram kemur að nýir íbúar í Urriðaholti virðast vera upp til hópa ungt fólk og pör með ung börn. Börn á leikskólaaldri í hverfinu eru orðin 240 í dag og er áætlað að þeim fjölgi í 480 þegar toppnum verði náð á árinu 2024. Í undirbúningi sé leikskóli í bráðabirgðahúsnæði í Kauptúni en fljótlega verði byggður varanlegur leikskóli við Holtsveg. Hugsanlega megi starfrækja þá báða samtímis meðan álagið er sem mest en bráðabirgðahúsnæðið verði svo aflagt að því liðnu skv. greiningu VSÓ Ráðgjafar. Spá fyrir grunnskólann gerir ráð fyrir að nemendafjöldinn í fyrsta til tíunda bekk fari úr 89 árið 2020 í 691 á árinu 2028.

Spurður um næstu skref segir Gunnar að verðkönnun sé í gangi fyrir uppsetningu lausra húseininga með sex deildum sem teknar verði í notkun í ágúst næstkomandi og bygging nýja leikskólans verði væntanlega boðin út á næstu vikum. Þar er um að ræða sex deilda leikskóla fyrir 120 börn með 35 stöðugildum. Tímaáætlun sem lögð var fram í bæjarráði fyrr í þessum mánuði gerir ráð fyrir að útboð verði auglýst í mars og framkvæmdir hefjist í maí. Þeim skal vera lokið 1. ágúst á næsta ári svo hægt verði að taka leikskólann í notkun um miðjan ágúst 2023.

Þá hafa að sögn Gunnars bæst við 12 leikskóladeildir sem geri kleift að svara þörfinni fyrir öll leikskólabörn frá tólf mánaða aldri.

Hægt er að nálgast fréttina í fullri lengd í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert