Allt tiltækt lið sent út vegna sígarettustubbs

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í gærkvöldi vegna reyks …
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í gærkvöldi vegna reyks í kjallara hótels. Morgunblaðið/Eggert

Reykur í kjallara hótels á Tryggvagötu í gær reyndist ekki koma frá logandi elds í byggingunni heldur úr röri sem lá við húsið og inn í kjallarann. Þetta staðfestir Stefán Kristinsson, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út og var því mikill viðbúnaður við hótelið rétt fyrir klukkan ellefu í gær í kjölfar þess að tilkynning barst um eld. Þegar á vettvang var komið var þó engan eld að sjá og tók því smá tíma fyrir slökkviliðsmennina að átta sig á hvaðan reykurinn kom. 

Það hafðist þó að lokum, en að sögn Stefáns hafði kviknað í rusli og gömlum sígarettustubbum sem lágu í röri nálægt hótelinu og inn í það. Þykir líklegt að einhver hafi í gáleysi lagt logandi sígarettustubb í rörið sem olli því að það kviknaði í. Reykurinn magnaðist upp vegna vindsins og fylgdi honum mikill fnykur.

Að sögn Stefáns fór þetta þó nokkuð vel. Eldurinn var ekki mikill og mjög litlar skemmdir urðu á byggingunni. Tók það slökkviliðið um klukkutíma að reykræsa kjallarann og var störfum þeirra lokið fyrir miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert