Covid-sýktur ökumaður skutlaði 3 farþegum

Lögregla hafði afskipti af ölvuðu fólki sem var til vandræða …
Lögregla hafði afskipti af ölvuðu fólki sem var til vandræða í miðbænum í gær. mbl.is/Ari

Lögreglan hafði afskipti af Covid-sýktum ökumanni í miðbænum á þriðja tímanum í nótt sem hafði verið að skutla þremur farþegum. Honum var kynnt að hann ætti að vera í einangrun og yrði kærður fyrir brot á sóttvarnalögum. Farþegarnir sem voru í bifreiðinni fóru sína leið, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Nokkuð var um ökumenn hefðu verið gripnir undir áhrifum áfengis og fíkniefna í nótt og gærkvöldi á höfuðborgarsvæðinu. 

Rétt eftir klukkan tvö var ölvaður maður handtekinn í miðbæ sem hafði verið að ónáða vegfarendur og stofna til slagsmála. Þegar lögregla kom á vettvang sat maðurinn í bíl konu sem hann þekkti ekki og neitaði að fara út.

Haldlagði töluvert magn áfengis

Um hálf þrjú leytið í nótt var ölvuð kona handtekin í miðbænum fyrir að trufla störf lögreglu. Konan var æst og fór ekki að fyrirmælum og veittist að lögreglumanni. Hún var færð á lögreglustöð þar sem hún róaðist og losnaði hún að lokinni upplýsingatöku.

Lögregla haldlagði töluvert magn áfengis í bifreið rétt eftir klukkan fjögur í nótt og var ökumaðurinn handtekinn vegna gruns um sölu áfengis. Ökumaðurinn, sem var kona, var færð á lögreglustöð í skýrslutöku þar sem hún játaði.

Þá var lögregla einnig kölluð á vettvang eftir að manni var hent út af bar sökum ástands í Hafnarfirði. Hlaut hann áverka á fæti og í andliti. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert