Forskot í reynslu og þekkingu

Umræðan um loftslagsmál verði svo að segja tekin niður á …
Umræðan um loftslagsmál verði svo að segja tekin niður á jörðina og formgerð, svo úr megi skapa lausnir,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, um verkefnin sem eru fram undan á vettvangi samtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Umhverfis- og loftslagsmál og græn verkefni eru áskorun fyrir samfélagið allt sem um leið fela í sér mikil tækifæri. Nú teljum við mikilvægt að umræðan verði svo að segja tekin niður á jörðina og formgerð, svo úr megi skapa lausnir,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins.

Á dögunum var á vettvangi samtakanna hrundið af stað Ári grænnar iðnbyltingar. Til þess er efnt í því skyni að vekja athygli á mikilvægi grænna umskipta í íslensku atvinnulífi. Grunnstefið þar er samkvæmt markmiðum stjórnvalda; að Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Það helst aftur í hendur við markmið Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að takmarka hlýnun við 1,5°C.

Ísland hefur alla burði til að ná forystu í loftslagsmálum og grænum lausnum, segir Árni. Forskot okkar felist í reynslu og þekkingu Íslendinga við framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum sé sömuleiðis unnið að þróun lausna sem stuðla eiga að minni kolefnislosun.

Samtök iðnaðarins tileinkuðu árið 2020 nýsköpun. Umhverfis- og loftslagsmál komu þar eðlilega inn í myndina. Nú stendur til að skerpa þar á og komast lengra. Á síðustu árum hafa, segir Árni, verið gerðar miklar breytingar til hins betra á starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og mikilvægt er að nýta þann meðvind og bæta í eins og hægt er.

Leiðarvísir að markmiðum

„Umhverfismál eru rædd af sífellt meiri þunga í atvinnulífinu. Til þess að nálgast þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir, á ábyrgan og lausnamiðaðan hátt þá höfðum við á síðasta ári meðal annars forgöngu um að útbúinn yrði á vettvangi Grænvangs Loftslagsvegvísir atvinnulífsins, sem mæltist vel fyrir. Þar er meðal annars að finna ýmis hagnýt ráð og leiðir sem geta hjálpað til við að ná árangri svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika,“ segir Árni og heldur áfram:

„Í grænum verkefnum þarf annars að skapa rétta umgjörð svo lausnirnar verði til. Til þess þarf bæði viðeigandi regluverk og fjármagn. Í Þýskalandi var nýlega kynntur fjárfestingapakki stjórnvalda upp á rúmlega 40 milljarða evra í þeim tilgangi að umbreyta innlendum orkuiðnaði og samgöngum til að ná loftslagsmarkmiðum. Sambærileg stefna er rekin í mörgum öðrum löndum í Norður-Evrópu, eins og Íslendingar þurfa að hafa til hliðsjónar.“

Álið og kolefnið

Ýmsar grænar og gagnmerkar staðreyndir úr íslensku atvinnulífi liggja fyrir, rétt eins og Samtök iðnaðarins benda á. Þar er til dæmis tiltekið að í álverunum hafi kolefnisnotkun fyrir hvert framleitt tonn af áli dregist saman um 75% frá árinu 1990. Slíkt hefur gerst með nýjum vinnubrögðum sem þróuð hafa verið á grundvelli rannsókna. Stóriðjan hafi sett sér markmið um kolefnishlutleysi og hafa nokkur fyrirtæki farið í samstarf við íslenska fyrirtækið Carbfix um að binda koltvísýring í berg.

Einnig er bent á að starfsemi stoðtækjaframleiðandans Össurar hafi verið kolefnishlutlaus í fyrra. Algalíf, sem framleiðir fæðubótarefni úr smáþörungum sem fyrirtækið ræktar, hefur fengið vottun fyrir kolefnishlutleysi á sínum vörum. Þá eru á Íslandi ýmis fyrirtæki sem vinna að úrvinnslu á sorpi og eru leiðandi á sínu sviði í þessum málum.

Breiðamerkurjökull. Hop jökla er birtingarmynd loftslagsbreytinga. Gegn þeim má sporna …
Breiðamerkurjökull. Hop jökla er birtingarmynd loftslagsbreytinga. Gegn þeim má sporna með betri nýtingu á grænni endurnýjanlegri orku. mbl.is/Sigurður Bogi

Árangurinn spyrst út

„Árangur Íslands í loftslagsmálum spyrst út og vekur athygli. Áðurnefndur Grænvangur, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, og Samtök iðnaðarins eiga aðild að, hefur miðlað sögum um þetta út um heim allan. Vel hefur gengið að vekja athygli erlendis á því sem við höfum fram að færa, til dæmis í erlendum fjölmiðlum. Þá hefur sýningin Græn framtíð, sem hýst er í Grósku í Vatsnmýrinni í Reykjavík og fjallar um framlag okkar til loftslagsmála, markmið og lausnir, vakið athygli en Friðrik krónprins Danmerkur var fyrsti gesturinn til að skoða sýninguna í lok síðasta árs. Óhætt er að segja að við getum sannarlega aukið verðmætasköpun á þessum grunni. Eflt frekar hugverkaiðnað, sem er orðinn fjórða stoð hagkerfisins og gæti orðið helsta útflutningsgrein Íslendinga,“ segir Árni og áfram:

„Okkur Íslendingum þykir held ég öllum afar vænt um náttúruna og landið okkar. Umræðan um umhverfis- og loftslagsmál tekur stundum óvænta stefnu því hún vill vera tilfinningahlaðin. En hér er samt mikilvægt að halda staðreyndum til haga, svo sem að í orkufrekum iðnaði eru fyrirtækin að vinna alveg frábært starf í umhverfismálum með kolefnisjöfnun og minni útblæstri. Sjávarútvegur, sem oft á samleið með iðnaði, hefur gert ótrúlega hluti með tilliti til grænna sjónarmiða. Nú bregður hins vegar svo við að hita þarf katla fiskimjölsverkmiðjanna með olíu af því framboð á raforku dugar ekki. Slíkt kallar á úrbætur í öflun grænnar raforku og flutningskerfi hennar, því við núverandi aðstæður verður orkuskiptum ekki komið við í sumum landshlutum. Það er óþolandi og óviðunandi staða. Skapa verður grænum lausnum sem best skilyrði.“

Áhuginn er raunverulegur

Samtök iðnaðarins boða til Iðnþings þann 10. mars nk., þar sem græna iðnbyltingin verður í brennidepli. Þá stefna Samtök iðnaðarins að því að gera á næstunni greiningar á umhverfisáhrifum, áskorunum og tækifærum einstakra geira iðnaðar, það er byggingariðnaði, matvælaframleiðslu og svo framvegis. Margt fleira er í bígerð.

„Við teljum mikilvægt að dýpka umræðuna og gefa skýr dæmi um hvaða grænu breytinga er þörf á einstaka sviðum. Áhugi félagsmanna okkar á umhverfis- og loftslagsmálum er raunverulegur og því höfum við lagt mikla áherslu á að fá þá að borðinu með sín sjónarmið, sem hefur verið ánægjulegt ferli,“ segir Árni Sigurjónsson og heldur áfram:

Í gegnum tíðina höfum við sem störfum í iðnaðinum tekið ýmis mál fyrir eins og nú er gert, brotið þau til mergjar og mótað stefnuna samkvæmt því. Sum af stefnumálum okkar eru auðvitað eilífðarmál, svo sem starfsskilyrði atvinnugreinarinnar almennt. Nú setjum við grænu málin hins vegar efst á blað og gerum að sérstöku áhersluefni þetta árið, því þau skipta samfélagið miklu og í þeim felast líka mikil tækifæri til framtíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert