Fámennt en góðmennt var á þorrablóti Sauðfjárræktarfélagsins Vonar, sem haldið var í Árneshreppi á föstudaginn síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á fréttavefnum Litla hjalla, sem Jón Guðbjörn Guðjónsson heldur úti.
Sextán manns mættu á þorrablótið, sem haldið var í í barnaskólanum á Finnbogastöðum. Þar var boðið upp á alvöru þorramat frá Múlakaffi í Reykjavík sem Norlandair hafði flogið með í hreppinn sama dag.
Skemmtunin byrjaði klukkan hálf átta og stóð framyfir miðnætti. Að matnum loknum sungu gestir þorrablótsins gamla slagara og brugðu á leik saman. Meðal annars var farið í látbragðsleikinn Actionary, sem vakti mikla lukku, sér í lagi þegar einn gestanna þurfti að leika óþekkan hund.
Var þetta í raun síðasti séns til þess að halda þorrablót svo það bæri nafn með réttu, þar sem þorraþræll var í gær og konudagur í dag, sem markar upphaf Góu, fimmta mánuð vetramisseris íslenska misseristalsins.