Snjóflóð féll í vesturhlíð Reykjafells

Snjóflóð féll í Reykjafelli í Mosfellsbæ í nótt.
Snjóflóð féll í Reykjafelli í Mosfellsbæ í nótt. Ljósmynd/Aðsend

Snjóflóð féll í vesturhlíðum Reykjafells í Mosfellsbæ í nótt. Frá þessu greindi Magne Kvam, íbúi í Reykjahverfi Mosfellsbæjar, í hópnum Snjóflóðatilkynningar á Facebook í dag.

Hundurinn rauk á fætur við drunurnar

Í færslunni lýsir Magne snjóflóðinu sem hinu „myndarlegasta flekaflóði“ og segir hann það að öllum líkindum hafa fallið í nótt.

Freyja Kjartansdóttir, annar íbúi í Reykjahverfinu, lýsir því svo í athugasemd við færsluna hvernig hundurinn hennar hafi rokið á fætur um eittleytið í nótt og veltir því upp hvort það gæti hafa verið vegna snjóflóðsins.

„Það komu miklar hviðudrunur rétt á undan,“ skrifar hún.

Ljósmynd/Aðsend

Veðuraðstæður hafi skapað fjölda snjóhengja

10 ára gömlum dreng var bjargað úr snjóflóði sem féll úr Hamrinum við Hveragerði rétt fyrir klukkan tvö í gær. Hafði snjóhengja fallið niður hlíð Hamarsins þar sem drengurinn hafði verið að leik með öðrum börnum.

Í kjölfarið beindi lögreglan og Slysavarnafélagið Landsbjörg þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferðinni við Hamarinn í Hveragerði eða hlíðar hans. Veðuraðstæður hafi skapað fjölda snjóhengja sem hætta sé á að falli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert