Foreldrar fjórtán ára stúlku sem lenti í átökum við kennara sinn í Dalvíkurskóla sem var að lokum sagt upp störfum, segja sárt og erfitt að lesa fréttir um barnið sitt og baráttu hennar.
Dóttir þeirra sé stimpluð sem „forhertur vandræðagemlingur, óalandi nemandi og einkar dónalegur unglingur.“ Hvergi komi aftur á móti fram hvað búi að baki.
Það reitir þau til reiði að dóttir þeirra geti lesið ítarlegar greinar um eigið ágæti og sé gjörsamlega varnarlaus.
„Barnið okkar sat á grasbala og fullorðinn aðili stendur yfir henni, ógnandi, heldur fast um sár eftir sjálfsskaða og neitar að sleppa henni, þrátt fyrir að barnið okkar hafi beðið hana um það ítrekað. Kennarinn sagði orðrétt „ég snerti þig ef ég vil það“. Barnið okkar upplifði þetta sem ógn og í bræði verður henni á og hún missir sig. Það sá á barninu okkar eftir þennan kinnhest og má því alveg spyrja sig um hversu léttur hann hafi verið... “
Mikil umræða braust út um málið í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands, þar sem uppsögnin var talin ólögmæt og kennaranum dæmdar átta milljónir króna í skaðabætur.
Foreldrar stúlkunnar eru þau Magnea Rún Magnúsdóttir og Kristján Már Þorsteinsson. Varðandi dómsúrskurðinn, segjast þau ekki hafa neitt út á hann að setja.
„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að í uppsögn kennarans var ekki farið rétt að málum. Ekki frekar en í mörgum málum dóttur okkar í skólanum þar sem hennar traust var oft brotið. Niðurstaða héraðsdóms var því á þá leið að lög voru brotin og því tapar Dalvíkurbyggð málinu. Af þessu getum við öll svo dregið einhvern lærdóm.“
Þau setja þó spurningarmerki við hvað það þýði að í dómnum er kennarinn sagður hafa „flekklausan feril.“ Það hafi foreldrar haft samband við þau með sögur af umræddum kennara og hvernig hann kom fram við þeirra barn.
„Sum þeirra mála ná mörg ár aftur í tímann. Má þar nefna: hunsun, einelti, ljót orð í garð nemenda og líkamlegt ofbeldi. Sumir þessa foreldra tilkynntu til skólans en aðrir því miður ekki. Því veltum við foreldrarnir fyrir okkur, hvernig skilgreinum við flekklausan feril?“
Í færslu sem Magnea birti, með samþykki dóttur sinnar, fer hún yfir áfallasögu hennar, þunglyndi, kvíða og sjálfsskaðatilraunir.
„Hvergi í dómnum kom fram að dóttir okkar, sem sat á grasinu á skólatíma í kennslustund hjá kennaranum, var með nýlega skurði á úlnliðnum og framhandlegg. Hún ítrekað bað kennarann um að sleppa hendinni á sér áður en hún brást við með þeim hætti sem við vitum öll hver var, hún slær til kennarans.“
Magnea og Kristján segja það ekki hvarfla að sér að réttlæta gjörðir dóttur sinnar, en þau hvetja fólk til að hafa í huga að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.
Þá komi heldur ekki fram í dómnum að daginn eftir umrætt atvik hafi kennarinn haldið einskonar fund eða umræðutíma með nemendum í næstu tveimur árgöngum fyrir ofan dóttur þeirra.
„Þar fer kennarinn ekki fallegum orðum um dóttur okkar, hafði uppi einhliða varnir fyrir sjálfa sig, og að okkar mati átti þar sér stað alvarlegur trúnaðarbrestur, þar sem kennarinn ræðir við aðra nemendur um persónuleg mál barnsins okkar, og að við best vitum án vitneskju nokkurs annars kennara eða skólastjóra.“