Viðvaranir í gildi fram eftir degi

Búist er við éljagangi á Norður- og Austurlandi en það …
Búist er við éljagangi á Norður- og Austurlandi en það mun stytta upp sunnanlands með morgninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir vindasaman dag á landinu og verða viðvaranir víða í gildi fram eftir degi. Seinnipart dags mun þó draga smám saman úr vindi og kólna.

Í textaspá Veðurstofunnar segir að norðaustan og austanlands megi búast við 15 til 23 metrum á sekúndu en syðst á landinu verður enn hvassara, eða á bilinu 23 til 28 metrar á sekúndu. Búist er við éljagangi á Norður- og Austurlandi en það mun stytta upp sunnanlands með morgninum.

Hiti verður um og undir frostmarki.

Lægð úr suðvestri

Djúp lægð úr suðvestri nálgast landið á morgun og mun hvessa og bæta í úrkomu síðdegis.

Fyrri part dags verða 8 til 15 metrar á sekúndu suðaustanlands og skúrir eða él sunnan- og vestanlands.

Annað kvöld er útlit fyrir ofsaveður á suðurhelmingi landsins með talsverðri rigningu, slyddu eða snjókomu. Búist er við að hiti verði rétt yfir frostmarki.

Þá er útlit fyrir hvassviðri eða storm norðantil með snjókomu á köflum.

Aðra nótt er búist við að skil lægðarinnar gangi norður yfir landið. Mun þá bæta í vind og ofankomu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert