Ólína Guðbjörg Ragnarsdóttir, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, lést 1. febrúar sl., 78 ára að aldri.
Ólína fæddist 4. febrúar 1944 á Skagaströnd. Foreldrar hennar voru Steinunn Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ragnar Árni Magnússon. Hún fluttist ung með foreldrum sínum til Grindavíkur og gekk þar í barnaskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Núpi. Hún lærði vélritun og hún stundaði nám í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð.
Ólína sinnti mörgu, hún saltaði síld á haustin, skar af netum, beitti bjóð og vann í fiski. Hún var umboðsmaður Morgunblaðsins í 25 ár og bar blaðið alltaf sjálf út. Hún sinnti bókhaldi útgerðarfyrirtækis sem hún átti ásamt Sævari Óskarssyni, eiginmanni sínum, var framkvæmdastjóri félagsheimilisins Festi í nokkur ár og vann á bæjarskrifstofu Grindavíkur þar til hún flutti til Reykjavíkur. Eftir það átti hún um tíma söluturn við Laugaveg. Þá vann hún við að selja auglýsingar fyrir markaðsfyrirtæki í fjölmörg ár.
Ólína söng meðal annars í kirkjukór Grindavíkur í 30 ár. Hún sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Kvenfélag Grindavíkur og var formaður árin 1976-1980. Þá var hún formaður Kvenfélagssambands Gullbringu- og Kjósarsýslu um tíma. Hún var virk í starfi Sjálfstæðisfélags Grindavíkur og árið 1974, þegar Grindavíkurhreppur fékk kaupstaðarréttindi, var hún kjörin í fyrstu bæjarstjórn Grindavíkur. Hún sat í bæjarstjórn næstu tvö kjörtímabil, var oddviti sjálfstæðismanna 1982-1986 og forseti bæjarstjórnar. Hún sat meðal annars í byggingarnefnd Víðihlíðar, heimilis aldraðra í Grindavík.
Fyrri eiginmaður Ólínu var Sævar Óskarsson, þau skildu. Börn þeirra eru Óskar, Jóhanna og Erlendur. Seinni eiginmaður hennar var Sigurður Geirsson, sem lést 1997. Eftirlifandi sambýlismaður Ólínu er Viðar Sigurðsson Norfjörð.