Borgin svarar óánægjubréfi starfsmanna

Töluverður snjór er í höfuðborginni.
Töluverður snjór er í höfuðborginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vetrarþjónusta gatna er öryggismál og mikið kapp lagt á að henni sé vel sinnt þannig að umferðin gangi sem greiðlegast fyrir sig á hverjum tímapunkti. Skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlands í Reykjavík hrósar starfsfólki fyrir frábært starf undanfarna daga og vikur við erfiðar aðstæður.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri sendir eftir að Morgunblaðið fjallaði um óánægju starfsmanna vetrarþjónustu borgarinnar með „hringlanda­hátt, þekk­ing­ar- og skiln­ings­leysi á verk­efn­inu og virðing­ar­leysi í [sinn] garð,“ af hálfu borg­ar­yf­ir­valda.

Hjalti segir að í áðurnefndu bréfi hafi komið fram ábendingar sem eru í skoðun, sumt hafi þegar verið lagfært og annað sé í ferli. Bréfinu hafi ekki verið svarað með formlegum hætti en ávallt sé brugðist við ábendingum um mál sem hafi með öryggi starfsfólks að gera.

Atvinnubílar til vetrarþjónustu voru boðnir út á árinu 2020. Í útboðinu voru gerðar kröfur um ýmsa þætti er lúta að sértækri notkun bílanna. Ein af kröfunum var burðargeta  sem skyldi nema 1000 kg að lágmarki. Allir bílar sem útboðshafi bauð fyrir vaktmenn í vetrarþjónustu þola 1180 kg í burð. Ennfremur var boðið upp á loftpúðafjöðrun sem gagnast við erfiðar aðstæður,“ segir í yfirlýsingu Hjalta.

Enn fremur segir að þrátt fyrir stefnu borgarinnar að draga úr notkun nagladekkja hafi verið veitt undanþága fyrir þjónustu undanfarabíla, þar á meðal fyrir þá sem flytji saltkassa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert