Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur greinst með Covid-19. Frá þessu greinir hann í færslu á Facebook-síðu sinni í dag, þar sem hann segir niðurstöðu PCR-prófsins ekki vera óvænta.
„Hef verið í einangrun og hóstað mig í gegnum helgina og fundi dagsins - þá sem ekki hefur verið hægt að fresta,“ skrifar Dagur í færsluna á Facebook.
Hann segist jafnframt vera síðastur af sex fjölskyldumeðlimum sem hafa skipst á að fá veiruna síðan í janúar.
„Hafði hlakkað til að fara um mitt gamla hverfi, Árbæinn, í hverfaviku frá og með morgundeginum. Því mun seinka. Planið er að ýta því aðeins á undan okkur en reyna engu að síður að heimsækja og hitta alla sem til stóð þótt tímasetningar breytist.“