Vonin um að diplómatísk lausn náist í máli Rússlands og Úkraínu fer dvínandi.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, innt eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun Vladimírs Pútín Rússlandsforseta að viðurkenna sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, og skipun hans til hersins um að fara yfir landamæri ríkjanna tveggja, til að „halda frið“ á svæðunum.
Aðskilnaðarsinnar hafa verið studdir leynt og ljóst af rússneskum stjórnvöldum frá því þau réðust þangað inn árið 2014.
Katrín segist hafa fylgst náið með þeim tilraunum sem forsvarsmenn ýmissa Vesturlanda, eins og til að mynda Frakklandsforseti, hafa staðið í til þess að reyna ná einhvers konar friðsamlegri lausn í málinu.
„Þessi yfirlýsing dregur hins vegar úr líkum á því og eykur líkurnar á að Vesturlönd ráðist í efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum,“ segir hún.
„Þannig ég hef væntingar um að þær aðgerðir verði til umræðu núna á næstu dögum.“
Ekki liggur fyrir hverjar refsiaðgerðirnar verða nákvæmlega.
Að sögn Katrínar leggur Ísland áherslu á að alþjóðalögum sé fylgt í samskiptum ríkja og því sé þessi atburður dapurlegur.
„Ég er ein þeirra sem hafa vonast eftir því að þarna náist friðsamleg lausn, því mér finnst viðfangsefnin sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag einmitt vera viðfangsefni sem kalla á það að þjóðir heims séu ekki að beita hervaldi til að ná sínum markmiðum fram,“ segir hún.
„Þannig þetta gerir okkur svartsýnni á slíkar lausnir og eykur líkurnar á efnahagslegum refsiaðgerðum.“