Spáð er suðaustan 8-15 metrum á sekúndu fyrripart dags og skúrum eða éljum, en bjartviðri verður fyrir norðan.
Ört versnandi veður verður síðdegis. Suðaustan 23-30 m/s verða á suðurhelmingi landsins í kvöld með talsverðri rigningu, slyddu eða snjókomu og hita á bilinu 0 til 4 stig. Spáð er austan og suðaustan stormi eða roki norðanlands í kringum miðnætti með snjókomu, skafrenningi og hita nálægt frostmarki.
Í nótt snýst í suðvestan og vestan 18-28 metra á sekúndu með rigningu eða snjókomu sunnanlands, en norðantil í fyrramálið og styttir þá upp á norðaustanverðu landinu. Hvassast verður við suðvesturströndina. Minnkandi suðvestanátt verður seinnipartinn á morgun með éljum sunnan- og vestanlands og kólnar smám saman.
Í athugasemd veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að suðaustan illviðri gengur yfir landið í kvöld og í nótt. Veðrið versnar fyrst sunnanlands.
Suðvestan óveður skellur síðan á Suðurlandi í nótt og á Vesturlandi fyrripartinn á morgun.