Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra lýsa yfir áhyggjum af yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu. Segir Þórdís Kolbrún í samtali við Morgunblaðið í dag að hljóðið hafi þyngst í ráðamönnum en hún hefur fundað með fjölda þjóðarleiðtoga á síðastliðna daga.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur í sama streng.
„Það er mikið áhyggjuefni og ekki rétt að gera neitt annað en að búast við hinu versta. Það er mikilvægt að utanríkisráðherra gat átt fundi með samstarfsráðherrum undanfarna daga auk þess að fá beint í æð tilfinningu fyrir því hvaða augum vinaþjóðir horfa á þetta mál og niðurstaðan getur ekki verið önnur en að það er mikið áhyggjuefni, hver staðan er,“ segir Bjarni.
Rödd Íslands lengi verið skýr
Spurður um mikilvægi þess að Ísland hafi rödd innan Atlantshafsbandalagsins segir hann:
„Mér finnst að okkar rödd hafi lengi verið skýr alveg frá því að Krímskagi var innlimaður og okkar viðbrögð hafa verið í takt við það sem hefur verið að gerast hjá samstarfsþjóðum okkar í varnar- og öryggismálum. Það skiptir máli. Ég tel að það eina rétta sé að halda þeirri línu áfram.“
Utanríkismálanefnd Alþingis fundar um málið á miðvikudaginn.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.