Þrettán starfsmenn á leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði eru frá vegna kórónuveirusmita og því fyrirséð að starfsemi skólans verði skert á næstu dögum.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem foreldrum barna á leikskólanum barst í dag.
„Því miður gætum við þurft að loka kjörnum áfram eða vera með skerta starfsemi. Við vonum svo innilega að ekki komi til þess. Við þökkum ykkur innilega fyrir mikinn skilning og góða samvinnu,“ segir enn fremur í tölvupóstinum.
Starfsmenn á Hjalla eru í heildina 47 talsins, samkvæmt vef leikskólans, og því má gera ráð fyrir að um 28% starfsmanna séu frá.
Annað þeirra tækja, sem notað er á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til að greina sýni vegna Covid-19, er bilað og gengur því einungis á hálfum hraða.
Af þeim sökum hefur erfiðlega gengið fyrir starfsmenn deildarinnar að „saxa á sýnahalann“ sem myndaðist þegar sóttkví var enn í gildi og aðsókn í sýnatöku var sem mest.
Von er á viðgerðarmanni á morgun, að því er Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala greindi frá í samtali við mbl.is í dag, og ætti tækið þá að geta starfað aftur á fullri afkastagetu.
Eins og staðan er núna nemur biðin eftir niðurstöðu úr Covid-sýnatöku um einum og hálfum sólarhring, jafnvel aðeins lengur.