Aðgerðir Rússa verði ekki án afleiðinga

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fordæmið sem Rússland er að setja með innrás sinni í Úkraínu í kjölfar yfirlýsingar um sjálfstæði tveggja svæða í austurhluta landsins í gær er „stórkostlega alvarlegt og það kemur ekki til greina að þetta fordæmi hafi ekki afleiðingar.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Ítrekaði hún jafnframt orð sín frá í gær og sagði málið fyrst og fremst snúast um að Rússland væri að „brjóta alþjóðleg lög og virða landamæri að vettugi.“ Það væri ofsalega alvarlegur hluti að hennar mati.

Breytt ástand öryggismála í álfunni

„Það er hægt að segja að alvarlegri sviðsmyndir séu að raungerast,“ segir hún aðspurð um viðbrögð við þróun mála frá í gærkvöldi. „Þó að við [Íslendingar] getum almennt verið þakklát fyrir það ástand sem við búum við þá er ástand öryggismála breytt,“ segir hún um stöðuna í Evrópu. Segir hún jafnframt að breytingin sé mikil fyrir margar af nágrannaþjóðir okkar sem séu staðsettar nær Rússlandi. Hún tekur þó fram að afleiðingarnar gætu orðið mestar fyrir almenna borgara í Úkraínu. „Þetta er sorglega staða sem er komin upp.“

„Það hefur afleiðingar þegar það er brotið“

Ísland er fámennt herlaust ríki og segir Þórdís að aðgerðir eins og þær sem Rússar hafi ráðist í séu sérstaklega slæmar fyrir smáríki. „Það er kalt mat okkar að við eigum allt undir að landamæri, sjálfstæði og lögsaga séu virt. Það hefur afleiðingar þegar það er brotið,“ segir hún. „Fordæmið er stórkostlega alvarlegt og það kemur ekki til greina að þetta fordæmi sem er verið að setja hafi ekki afleiðingar.“

Þórdís er þessa stundina stödd á fundi varnarmálaráðherra tíu Evrópuríkja, en um er að ræða varnarmálavettvang undir forystu Bretlands sem gengur undir nafninu Joint Expeditionary Force. Auk Bretlands og Íslands eru þar Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin og Holland.

Þungur tónn í varnarmálaráðherrum

„Þessi fundur hefur eðli máls samkvæmt snúist um stöðuna sem upp er komin,“ segir Þórdís, en boðað var til fundarins áður en innrás Rússa lá fyrir. „Undir eðlilegum kringumstæðum sætu allir við borðið, en eins og staðan er núna eru ráðherrar að fara fram og funda með sínu fólki heima, hvort sem það eru forsætisráðherrar eða þjóðaröryggisráð,“ segir Þórdís og bætir við: „Það er mjög þungur tónn í fólki.“

Bendir hún á að á fundinum séu varnarmálaráðherrar ríkja sem eigi landamæri að Rússlandi og þar sem þessi atburðarás og ógn frá Rússum sé næstum því í bakgarðinum hjá. Þannig hafi óformlegir fundir átt sér stað í gær þar sem talað hafi verið með hreinskiptari hætti en á formlegum fundum. „Það er mjög verðmætti fyrir mig og okkur að fá þetta beint í æð segir hún.“

Efnahagsþvinganir næstu skref

Þórdís segist sjálf hafa lagt sig fram við að tala yfirvegað um stöðu mála undanfarið, en að atburðarásin í gær og í dag gæti haft meiriháttar afleiðingar. Hún segist þó ekki vilja úttala sig um næstu skref sem mögulega verði stigin varðandi þvinganir umfram það sem áður hefur komið fram eða hvort hún telji að komi til hernaðarátaka. „Næstu skref eru efnahagsþvinganir og svo fylgjumst við áfram með stöðunni,“ segir hún.

Þórdís segist eiga von á því að frekara samtal verði tekið á vettvangi Nató mjög fljótlega og þar standi fastafulltrúi Íslands vaktina og fundi stíft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert