Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir afstöðu íslenskra stjórnvalda vera skýra hvað varðar innrás rússneska hersins í Úkraínu.
Hún segir innrásina brot á alþjóðalögum og að Ísland muni taka þátt í þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins.
„Þarna er um að ræða landamæri sjálfstæðs ríkis þar sem Rússland er ekki einungis búið að viðurkenna sjálfstæði þessara tveggja héraða heldur líka senda hermenn yfir landamærin, sem við teljum alvarlegt brot á alþjóðalögum,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Hún segir innrásina hafa verið rædda á ríkisstjórnarfundinum. Katrín segir það liggja fyrir að Evrópusambandið hafi verið að undirbúa þvingunaraðgerðir, efnahagslegar refsiaðgerðir, og væntir hún að þær verði til umræðu á næstunni, í dag eða á morgun.
Ísland mun taka þátt í þeim aðgerðum að sögn Katrínar og mun utanríkisráðherra eiga samtal við utanríkismálanefnd, eins og venja er í þessum efnum.
Katrín segir að vilji leiðtoga Vesturlanda til að skoða diplómatískar leiðir í þessum málum hafi komið skýrt fram og að enn sé haldið í þá von.
„Auðvitað vonar maður að þessi atburðarás leiði ekki til blóðugra átaka sem gæti haft hrikalegar afleiðingar bæði fyrir óbreytta borgara á svæðinu, sem eru auðvitað alltaf fórnarlömbin í svona aðstæðum, og líka haft mikil áhrif á Evrópu, ef við gefum okkur að þetta valdi flótta fólks og slíkt.“
Hún segir ekki langt síðan stríðin á Balkanskaga voru, með tilheyrandi afleiðingum fyrir Evrópu, því sé ekki hægt að tala um að stanslaus friður hafi verið innan Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
„Það er auðvitað ástæðan fyrir því að leiðtogar til að mynda Frakklands og Þýskalands hafa verið að beita sér róttækt fyrir einhvers konar diplómatískum lausnum í þessu máli, er að það hefur auðvitað áhrif á alla Evrópu.“
Katrín ræddi einnig við mbl.is í gærkvöldi.