„Svona högg, að fá erfiðan snjóavetur, er ekkert nýtt,“ segir Örn Þórðarson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í samtali við mbl.is. Starfsmenn vetrarþjónustu Reykjavíkur sendu yfirmönnum sínum bréf í síðasta mánuði þar sem þeir kvarta yfir hringlandahætti, þekkingar- og skilningsleysi á verkefninu og virðingarleysi í sinn garð af hálfu borgaryfirvalda.
Í síðustu viku hefur töluvert verið kvartað yfir fannferginu í borginni en ýmsir telja götur og gangstiga seint og illa rudda. Örn segir að það megi gera miklu betur í þessum málum:
„Það gleymist stundum að þetta er öryggismál.“
Í bréfi starfsmanna vetrarþjónustunnar kemur meðal annars fram að bílar hafi verið keyptir sem beri ekki 1.000 kg saltkassa og það hafi gert illt verra að í vetur hefði verið bannað að hafa nagladekk undir eftirlitsbílum.
Örn segir að sveitarfélög um allt land þekki þessa stöðu; að snjó kyngi niður af miklum krafti eins og gert hefur í borginni. „Það girða sig þá allir í brók og fara í það að koma hlutunum í stand.“
Örn hefur þá tilfinningu að í borginni sé þetta eitthvað sem menn ætli að láta fara af sjálfu sér. „Hluti af verktökum eiga alls konar tæki sem hægt er að kalla út. Þó ég viti að þetta sé stór fjárhagslegur baggi er þetta samt baggi sem sveitarfélög hingað til hafa tekið á sig.“
Örn segir snjómoksturinn, eða skort á honum, ekki passa við stefnu meirihluta borgarinnar þar sem fólk er hvatt til að forðast nagladekk í lengstu lög.
„Þá þarf vitanlega að fylgja að enn betur sé hreinsað og meiri kraftur settur í þessa öryggisþjónustu. Þetta snýst ekki bara um fólksbíla heldur líka strætóa, sorphirðubíla og auðvitað gangandi og hjólandi, þar sem nánast hefur verið ófært í marga daga,“ segir Örn.
Hann bendir á í þessu samhengi að svo virðist sem fólk í sambýlum borgarinnar hafi gleymst en það hafi verið innilokað svo dögum skipti vegna færðar.
Örn segir að ekki eigi að spara við snjómoksturinn, líkt og raunin virðist vera, heldur komast í gegnum skaflinn.
„Það tekur kraft, tíma og fjármagn. Það þarf að vera vilji fyrir því en vonandi hættir að snjóa einhvern tímann.“