Enn hætta á frekari innrás

Reykur rís upp frá orkuveri í dag, skammt frá úkraínsku …
Reykur rís upp frá orkuveri í dag, skammt frá úkraínsku borginni Lugansk, eftir að það varð fyrir árás. AFP

Enn er hætta á að Rússar geri frekari innrás í austurhluta Úkraínu.

Þetta segir Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, í samtali við mbl.is.

Segir aðgerðir Rússa ekki koma sér á óvart

Vla­dimír Pútín for­seti Rúss­lands skrifaði und­ir viður­kenn­ingu á sjálf­stæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í aust­ur­hluta Úkraínu í gærkvöldi, en aðskilnaðarsinn­ar hafa verið studd­ir leynt og ljóst af rúss­nesk­um stjórn­völd­um frá því þau réðust þangað inn árið 2014.

Í kjöl­far viður­kenn­ing­ar­inn­ar skipaði hann svo her sín­um að fara yfir landa­mæri ríkj­anna tveggja, til að „halda frið“ á svæðunum.

Inntur eftir viðbrögðum við nýjustu vendingum í þessum málum segir Albert viðurkenninguna og aðgerðir rússa frá því í gær ekki hafa komið sér á óvart.

„Þetta er auðvitað búið að vera inni í dæminu alveg frá árinu 2014, þegar þessi svokallaða Úkraínudeila hófst í nútímaskilningi. Í kjölfar þess að þeir [Rússar] hernámu Krímsskagann þá fóru aðskilnaðarsinnar í gang þarna, þó þeir hafi verið farnir að bylta sér aðeins áður.“

Þá hefur þrýstingurinn á að sjálfstæði svæðanna tveggja verði viðurkennt einnig aukist að undanförnu, að sögn Alberts.

„Pútín sagði á blaðamannafundi með kanslara Þýskalands, í byrjun síðustu viku, að þarna væri vaxandi þrýstingur og að hann hefði fullan skilning á því hvers vegna þingmönnum, bæði úr stjórnar- og stjórnarandstöðu, væri umhugað um þessa viðurkenningu. Þá sagði hann að viðurkenning á sjálfstæði svæðanna væri svar við kalli almennings.“

Liðsaflinn gefi til kynna stærri atlögu

Segir Albert það þó hafa komið sér á óvart hve fljótt Pútín viðurkenndi sjálfstæði svæðanna.

„Ég hélt hann myndi bíða með þetta, láta hótunina um þetta vofa aðeins yfir þessu og sjá hvað kæmi út úr því, en hann gerði það ekki.“

Það að Pútín myndi skipa her sínum að fara yfir landamæri ríkjanna tveggja undir yfirskini friðargæslu, eins og hann gerði í gær, hafi svo alltaf verið möguleiki, og jafnvel líklegri möguleiki heldur en stórfelld innrás, að mati Alberts.

„Ég held það séu þó enn ákveðnar líkur á að það verði stærri aðgerðir. Þeir eru ennþá með, að sagt er, upp undir 200 þúsund hermenn í nágrenni við Úkraínu, liðsafla sem ber ákveðin einkenni, sem segja að það sé hægt með skömmum fyrirvara að ráðast til atlögu með mun stærri hætti en verið er að gera þarna í þessum litlu héruðum í austurhluta Úkraínu.“

Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi.
Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi. mbl.is/Hallur Már

„Þú ferð aldrei í innrás nema að hafa varalið“

Þannig að hættan á stórfelldri innrás er enn yfirvofandi?

„Já, á meðan þetta lið er þarna, svona stórt og í þessum stellingum sem það er í. Það er nefnilega aðalatriðið, ekki hvað þeir eru margir. Þeir urðu jú reyndar langt yfir 100 þúsund talsins, fyrir viku eða tíu dögum síðan, því þá var verið að kalla inn varalið og mannskap sem sér um alla birgðaflutninga og allt slíkt. Þú ferð aldrei í innrás nema að hafa varaliðið. Herinn fer fyrstur og svo þarf varaliðið að koma á eftir.“

Þá segir hann umfangsmikla flutninga Rússa á þyrlum, stórskotaliðum, bílum, loftvörnum og öðru slíkum búnaði að landamærum Úkraínu einnig bera merki þess að stærri aðgerðir gætu verið í vændum.

„Þetta er allt eitthvað sem Bandaríkjamenn hafa mikla burði til þess að fylgjast með úr flugvélum, gervitunglum og með alls kyns öðrum aðferðum. Þannig þetta er allt í gangi líka.“

Auk þess bendir hann á að Pútín hafi farið mikinn í ávarpi sínu í gær þar sem hann sagði í raun Úkraínu ekki vera til sem ríki, heldur væri hún óaðskiljanlegur hluti af rússneskri sögu, menningu og rússneskri þjóðarsál.

„Síðan ítrekaði hann kröfur á hendur NATO, sérstaklega við Bandaríkin, sem fela í sér að klukkan verði færð aftur í öryggismálum í Evrópu. Þeir gera kröfur um að NATO stækki ekki frekar, þ.e. fari ekki inn í Úkraínu, og auðvitað hafa NATO sagt þetta vera óaðgengilegar kröfur.“

Rússneskir hermenn á skriðdrekum.
Rússneskir hermenn á skriðdrekum. AFP

Reyni mögulega að taka yfir restina af Donbas

Spurður hvernig hann sjái framhaldið fyrir sér og til hvaða aðgerða Pútín sé líklegur til að grípa næst segir Albert það ráðast af því hvort það komi til frekari átaka í austurhluta Úkraínu á næstu dögum.

„Það eitt og sér gæti leitt til stærri hernaðaraðgerða af hálfu Rússa. Það eru ennþá bara getgátur uppi um það hvað þeir gera, hvort stærri innrás verði gerð í framhaldi af þessu. Því er allavega haldið fram í bandaríska stjórnkerfinu að það standi til. Þannig hvað gerist næst er held ég háð því hvað gerist þarna í austurhluta Úkraínu næstu daga,“ segir Albert.

„Þessi héruð sem voru viðurkennd í gær eru bara 30% af þessu Donbas-svæði sem þýðir að 70% er enn undir yfirráðum Úkraínu. Kannski gerist það næst að það verði farið í að leggja allt Donbas undir aðskilnaðarsinnana, það er einn möguleikinn. En til að ítreka þá er innrásarhættan ekki liðin hjá þar sem liðsöfnuðurinn er þarna ennþá og engar fréttir hafa borist af því að það eigi að draga hann til baka eða breyta honum með einhverjum hætti.“

Héruðin Donetsk og Luhansk eru saman kölluð Donbas.
Héruðin Donetsk og Luhansk eru saman kölluð Donbas. AFP

Ekki búið að slá diplómatíska lausn af borðinu

Bendir Albert að lokum á að þótt Vesturveldin séu ýmist farin að undirbúa eða grípa til þvingana eða refsiaðgerða gegn Rússum vegna aðgerða þeirra í gær, sé enn ekki búið að loka á diplómatíska lausn eða viðræður í málinu.

„Blinken og Lavrov hyggjast funda formlega á fimmtudaginn. Það var svo haft eftir háttsettum bandarískum embættismanni, sem þýðir utanríkisráðherrann eða menn næst honum, að þar til skriðdrekarnir fari af stað verður dyrunum á viðræður af hálfu bandaríkjastjórnar haldið opnum. Lavrov sagði það sama í morgun, þannig þeim möguleika er enn haldið á lofti.“

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert