Gætu þurft að fylgja börnum í skóla

Í ljósi þess að appelsínugul veðurviðvörun er í gildi í dag frá klukkan 6.00 til 10.00 á höfuðborgarsvæðinu þurfa forsjáraðilar að meta sjálfir hvort fylgja þurfi börnum í skóla eða frístundastarf.

Við appelsínugula veðurviðvörun er meiri þörf á að fylgja börnum í skólann, að því er segir í tilkynningu frá deildarstjóra almannavarna á höfuðborgarsvæðinu.

Bent er á að oft getur verið hvasst í efri byggðum. Ef hálka eða ofankoma fylgir veðrinu aukast líkur á að þörf sé fyrir fylgd.

„Forsjáraðilar þurfa að morgni að tryggja að starfsmaður sé í skólanum til að taka á móti börnunum þar sem einhver röskun getur orðið á skólastarfi vegna veðurs. Tafist getur að fullmanna skólann og mega forsjáraðilar þá búast við að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra. Forsjáraðilar eru hvattir til að taka slíkum óskum vel,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert