Byggðastofnun hefur ákveðið að endurgjald Íslandspósts vegna alþjónustu á síðasta ári verði 563 milljónir króna. Íslandspóstur sótti um 722 milljónir króna.
Fram kemur á heimasíðu Byggðastofnunar, að samkvæmt lögum um póstþjónustu eigi allir landsmenn rétt á alþjónustu sem uppfyllir tilteknar gæðakröfur og er á viðráðanlegu verði. Póstrekandi sem er útnefndur til að veita alþjónustu getur sótt um til Byggðastofnunar að honum verði með fjárframlögum tryggt sanngjarnt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir ef að hann telur að alþjónusta sem honum er skylt að veita hafi í för með sér hreinan kostnað.
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar árið 2020 var Íslandspóstur ohf. útnefndur alþjónustuveitandi á Íslandi. Umsókn fyrirtækisins um sanngjarnt endurgjald barst til Byggðastofnunar 25. janúar sl. Í umsókn félagsins var sótt um sanngjarnt endurgjald vegna dreifingar pósts á óvirkum markaðssvæðum í dreifbýli og þéttbýli auk endurgjalds vegna þeirrar skyldu sem hvíldi á fyrirtækinu að vera með sömu gjaldskrá innan alþjónustu um land allt sem og að tilteknar póstsendingar fyrir blinda eiga að vera gjaldfrjálsar.