Samræmd könnunarpróf verða ekki lögð fyrir á skólaárinu og frekari þróun Matsferils, nýrrar verkfærakistu til kennara og skóla, hefst. Matsferill mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni fyrir grunnskólanemendur og kennara til að fylgjast með námsframvindu nemenda og bæta nám þeirra og námsárangur.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Starfshópur um framtíðarstefnu um samræmt námsmat lagði til að samræmd könnunarpróf yrðu felld niður í núverandi mynd þar sem þau henti ekki sem mælikvarði á stöðu nemenda og skólakerfisins í heild.
Prófin hafa ekki verið tengd innritun í framhaldsskóla í nokkur ár og eru ekki talin hafa verið nýtt sem skyldi til umbóta. Vægi þeirra hefur því minnkað töluvert. Þar að auki eru vísbendingar um að samræmd könnunarpróf nái ekki að prófa nemendur í ýmsum lykilþáttum aðalnámskrár grunnskóla.
Markmið Matsferils er að færa námsmat nær nemendum og kennurum og að Matsferillinn þjóni sem skólaþróunarverkfæri, aðgengilegt fyrir nemendur, kennara og skóla að nota eftir þörfum.